Mick Jagger segir að Rolling Stones hafi verið ungir, myndarlegir og heimskir þegar þeir gerðu plötuna Exile on Main Street. Hann segir þetta í tilefni af heimildarmynd um plötuna sem verið er að frumsýna í Cannes.
Ungir og heimskir kannski, en myndarlegir – fjandakornið, það var Mick Jagger aldrei. Frekar þá Keith á sínum yngri árum.
Exile hefur löngum verið talin eitt helsta meistaraverk Stones. Þetta er fyrst og fremst plata Keith Richards, hún er hrá og virkar stundum losaraleg, þarna grautast saman rokk, blús og kántrí og alls konar stíltegundir – Jagger sagði sjálfur fyrir nokkrum árum að þetta væri ekki ein af uppáhaldsplötunum sínum.
Á þessum tíma hélt hljómsveitin til á herragarði í Suður-Frakklandi. Keith hékk með gítarleikaranum og söngvaranum Gram Parsons sem áður hafði verið í The Byrds og Flying Burrito Brothers. Sjálfur Richards farinn að nota heróín upp á hvern dag.
En Parsons var svo mikill sukkari að hann gekk á endanum fram af Keith og unnustu hans Anitu Pallenberg. Parsons andaðist stuttu síðar úr sukki. Hann var orðinn stórt nafn í tónlistinni, enda með eindæmum hæfileikaríkur, en kastaði því öllu frá sér. Hann er þó þjóðsagnapersóna og talinn einn upphafsmaður þess að blanda saman rokki og kántrítónlist.
En þetta var vissulega gullaldartími Stones, þegar þeir gáfu út plöturnar Beggar’s Banquet, Let it Bleed, Exile on Main Street og Sticky Fingers. Black ‘n’ Blue og Some Girls eru líka ágætar plötur – en síðan þá hefur hljómsveitin fremur verið að spila gömlu rulluna aftur og aftur.
Hér er Tumbling Dice af Exile – og jú annars, Mick er bara sætur.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=OmfHV8Nw8Mw&feature=related]
Og hér er Gram Parsons með Wild Horses, lag af Sticky Fingers:
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=07oufBC_JjQ]