Ég er ekki í hópi sérstakra aðdáenda mannsins sem kallar sig Gilzenegger. Það sem hann hefur gert vekur ekki áhuga minn. En ég hætti heldur ekki að fletta símaskránni eftir að hann birtist þar.
Og ég hef heldur ekki sérstakan áhuga á sakamáli sem hann er lentur í. Rétt leit yfir nokkrar bloggsíður í gærkvöldi og færslur á Facebook.
Það er eins og karlar og konur telji að hægt sé að gera út um sekt eða sakleysi mannsins á bloggsíðum og Fésinu.
Sem er býsna fráleitt.
Maður veit nákvæmlega ekkert um málavexti – en ég sé ekki að hann sé slík ofurpersóna í íslensku samfélagi að það muni geta fært honum einhverja yfirburðastöðu gagnvart meintu fórnarlambi sínu, ákæruvaldinu eða dómsvaldinu.
Ég er alveg viss um að fjölmiðlafyrirtækið sem hann vinnur hjá mun ekki beita áhrifum sínum í þágu hans – enda vandséð að það geti gerst án þess að fyrirtækið bíði hnekki.
Það er best í þessu tilviki að spara stóru orðin, rannsókn málsins leiðir vonandi sannleikann í ljós, hafi hann nauðgað stúlkunni verður honum vonandi ekki sýnd nein miskunn – og ég myndi ekki veðja á að Gilz eigi mikla framtíð í fjölmiðlum næstu misserin með þetta á bakinu.