Þeir leita langt yfir skammt biskupinn og presturinn sem líkja borgarstjórninni í Reykjavík við Sovétríkin.
Því það er alveg óþarfi að grípa til rússnesku byltingarinnar í þessu sambandi, enda hefur aldrei verið talað um að myrða presta eða setja þá í fangabúðir.
Nærtækara er að líta til frönsku byltingarinnar – en hugmyndir hennar lögðu að miklu leyti grunninn að því stjórnarfari sem við þekkjum.
Eitt afsprengi hennar eru lög sem loks voru sett í Frakklandi 1905 eftir langa baráttu. Þau kveða á um aðskilnað ríkis og kirkju, í því felst að kirkjan skuli láta ríkið vera og ríkið skuli láta kirkjuna vera.
Frakkar hafa yfir þetta sérstakt hugtak sem er vandþýðanlegt – orðið er laïcité og er haft yfir þennan aðskilnað ríkisins og kirkjunnar, en það inniber frelsi til hugsunar, frelsi til trúar, en þýðir ekki trúleysi eða fjandskap gegn kirkju eða klerkum, heldur að þarna séu tvö ólík svið, veraldlegt og trúarlegt. Þetta þýðir meðal annars að trú er ekki iðkuð í skólum.
Lögin voru sett árið 1905 eins og áður segir, og orðið kemur fyrir í fyrstu grein frönsku stjórnarskrárinnar. Þetta var fellt úr gildi á tíma Vichy-stjórnarinnar í stríðinu – hún var leppstjórn nasista og aðhylltist öfgafull þjóðernisviðhorf – en þegar De Gaulle náði völdum með sinni borgaralegu hreyfingu eftir stríðið voru þau fljótlega sett í gildi aftur.