Það eru geysilega merkilegar upplýsingar sem koma fram á þessari vefsíðu þar sem er tölulegt yfirlit yfir innflytjendur á Íslandi. Þarna má sjá hvernig þeim fer að fjölga verulega í lok síðustu aldar, stærsti kúfurinn er svo á fyrsta áratug þessarar aldar, og mest frá 2005 til 2008. Þeim fækkar svo ögn eftir hrun.
Þarna má líka sjá að innflytjendur eru 7 prósent af íbúum Íslands. Sé borið saman við önnur Evrópulönd er það svipað hlutfall og í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi. Við erum nokkuð yfir heildartölu Evrópusambandsins, 4 prósent íbúa þess eru innflytjendur.
Innflytjendurnir hér á landi eru langflestir frá Póllandi, meira en 9 þúsund. Næst stærsti hópurinn eru Litháar.
Þarna kemur fram að byggt sé á upplýsingum frá Hagstofunni. Íbúafjöldi á Íslandi hafi verið 321,857 í byrjun þessa árs, þar af hafi verið 21,446 innflytjendur.