Farið og sjáið, sovéska myndin, sem er sýnd í Kvikmyndasafninu í Bæjarbíói í Hafnarfirði, kemur til álita sem ein besta stríðsmynd allra tíma.
Ég myndi setja hana við hliðina á Killing Fields, myndina um hvernig Kambódía féll í hendur Rauðu khmeranna, og Paths of Glory, mynd Stanleys Kubrick úr heimstyrjöldinni fyrri.
Farið og sjáið er gerð af leikstjóranum Elem Klimov árið 1985. Mig minnir að hún hafi verið sýnd í Laugarásbíói á sínum tíma, á almennum sýningum fremur en einhverri kvikmyndahátíð.
Altént varð hún umtöluð um bæinn og fékk talsverða aðsókn. Hefur síðan verið sýnd nokkrum sinnum á Íslandi.
Myndin lýsir nær óskiljanlegum hryllingi, framferði morðsveita nasista í Hvíta-Rússlandi eftir innrásina í Sovétríkin og hvernig ungur drengur upplifir skelfinguna.
Annars er rétt að mæla með sýningum Kvikmyndasafnsins. Þær fara eins og áður segir fram í Bæjarbíói. Þetta er hús sem á merkilega sögu, þarna voru fjölsóttar kvikmyndasýningar á árum áður. Hafnarfjarðarbær rak bíóið og ágóðinn fór í að byggja upp félagsþjónustu í bænum. Salurinn og anddyrið eru enn í því horfi sem var þegar bíóið var og hét. Það eitt sér er nægileg ástæða til að gera sér ferð í Hafnarfjörð.
Svo mörg önnur bíó urðu eyðileggingu að bráð – sorglegasta dæmið er Nýja bíó sem var skemmt af vandölum sem þar innréttuðu skemmtistað.