Við lifum skrítna tíma.
Kosningarnar í vor snerust mest um skuldaniðurfellingar og skattalækkanir.
En nú er allt annað uppi á teningnum.
Það er talað um niðurskurð í ríkisrekstrinum og hugsanlega fjöldauppsagnir ríkisstarfsmanna.
Kannski hefði verið eðlilegra ef þetta hefði borið á góma í kosningabaráttunni?
Eins og hún spilaðist, þá verður að segja að ríkisstjórnin hefur veikt umboð til niðurskurðarins.
Annað sem vekur athygli er að í nefndinni sem á að leggja fram tillögur um niðurskurð í ríkisrekstrinum – nefndinni sem segir að ekkert sé heilagt – eru bæði formaður og varaformaður samtakanna Heimssýnar.
Fáir hafa verið gagnrýnni á niðurskurð ríkisins í löndum eins og Grikklandi og Spáni en einmitt Heimssýn. Oft hefur verið talað um hreina illmennsku í þessu sambandi og í nýlegum pistli á vef samtakanna er meira að segja notað orðið stríð.