Uppi á þaki í Suður-London (hitinn er 25 stig þótt komið sé fram yfir miðnætti) horfi ég á The Shard, hæstu byggingu í Evrópusambandinu, að því sagt er.
Þetta er glerpýramíði og hefur verið mjög umdeildur. Hann er byggður af kaupsýslumönnum frá Quatar, sumir sögðu að hann myndi eyðileggja sjóndeildarhringinn í London.
Dálkahöfundurinn frægi, Simon Jenkins, var mjög reiður og líkti húsinu við eyðileggingu Dresden í stríðinu.
Byggingin er 306 metra há, teiknuð af arkitektinum Renzo Piano.
Nú hef ég séð hana frá ýmsum hliðum, í dagsbirtu, rökkri og að næturþeli.
Og ég segi eins og er – mér finnst hún glæsileg.