Tíminn eftir að efnahagskreppan 2008 reið yfir er ekki sérlega þægilegur til að sitja í ríkisstjórn.
Stjórnmálamenn komast til valda með miklum fyrirheitum, þeim reynist ómögulegt að standa við þau, fljótlega verða þeir og flokkar þeirra afar óvinsælir.
Þetta var það sem geriðist á Íslandi með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
En þetta hefur líka gerst í Bretlandi hjá David Cameron. Ef boðað yrði til kosninga nú myndi Íhaldsflokkurinn tapa.
Það fjaraði afar fljótt undan François Hollande í Frakklandi. Nú er hann hafður að háði og spotti í frönsku pressunni.
Helle Thorning-Schmidt er orðin afar óvinsæl í Danmörku.
Hið sama má segja um Antonis Samaras í Grikklandi, Enda Kenny á Írlandi og Mariano Rajoy á Spáni.
Meira að segja í Noregi og Svíþjóð þar sem sömu ríkisstjórnir hafa setið nokkuð lengi – og með frekar góðum árangri – er stjórnarandstaðan komin fram úr í skoðanakönnunum.
Kjósendur eru víða afar óþolinmóðir, fullir af gremju og jafnvel heift. Stjórnmálamenn ráða lítið við þetta, enda hafa þeir takmarkaða stjórn á rás atburða.
Það þarf varla mikinn spámann til að sjá að hin nýja ríkisstjórn Íslands mun varla njóta almennra vinsælda á tímum sem þessum.