Það er afskaplega sorglegt að Edward Snowden skuli hvergi fá hæli.
Hann hefur meðal annars ljóstrað upp hvernig Bandaríkin hafa njósnað um Evrópusambandið og meintar vinaþjóðir í Evrópu.
Það hljóta að teljast nokkuð þarflegar upplýsingar.
Leiðtogar Evrópuríkja hafa sumir lýst því yfir að samskipti við Bandaríkin hjóti að skaðast vegna þessa.
Forsætisráðherra Lúxemborgar sagði að Bandaríkjastjórn væri nær að fylgjast með sínum eigin eftirlitsstofnunun en öðrum vinveittum ríkjum.
En það er einhver ótrúleg vænisýki í loftinu og Bandaríkjunum og hefur verið lengi. Í raun má segja að bandaríska kerfið nærist að vissu leyti á þessu. Og eftirlitsiðnaðurinn er náttúrlega stór bisness.
Við þurfum ekki annað en að skoða vinsælar bíómyndir sem koma frá Bandaríkjunum til að sjá hvað er á ferðinni.
Tvær vinsælustu myndir síðustu missera sem koma frá bandarísku kvikmyndaverunum fjalla um árásir á sjálft Hvíta húsið, síðari myndin heitir White House Down og er afar vinsæl vestra þessa dagana.
Þarna stendur forsetinn sjálfur í átökum við hyðjuverkamenn, í eigin persónu og um leið er verið að næra hástig paranojunnar.
En aftur að Snowden.
Hann stendur auðvitað miklu nær hugsjónum bandarísku stjórnarskrárinnar um frelsi og friðhelgi en þeir sem nú stjórna Bandaríkjunum.
„The right of the people to be secure in their persons, houses, papers, and effects, against unreasonable searches and seizures, shall not be violated, and no Warrants shall issue, but upon probable cause, supported by Oath or affirmation, and particularly describing the place to be searched, and the persons or things to be seized.“