Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra blandaði sér inn í umræðuna um Landsímareitinn í gær þegar hann sagðist telja að ætti að vernda ætti skemmtistaðinn sem kallast Nasa (afsakið, ég höndla ekki alveg að gamalt hús í Reykjavík beri þetta nafn, væri ekki nær að tala bara um Sjálfstæðishúsið.)
Sigmundur Davíð, sem er sérfróður um skipulag og húsavernd, hefur áður tjáð sig um þetta svæði. Það var í afar skemmtilegu og fróðlegu bloggi frá því í janúar 2012.
Þar fjallar Sigmundur einkum um Ingólfstorg. Sjálfur hef ég lýst þeirri skoðun minni að þetta torg sé til lýta í borgarmyndinni. Sigmundur vill í bloggi sínu færa það til vegs og virðingar með því að endurbyggja Hótel Ísland, hús sem brann 1944.
Því Ingólfstorg var ekki til sem torg á árum áður, þetta var endirinn á Austurstræti, með húsum út að Aðalstræti. Þarna var lengi Hallærisplanið sem var beinlínis ofan á rústinni af Hótel Íslandi.
En hér skal mælt eindregið með bloggi Sigmundar, því fylgja mjög áhugaverðar myndir, hér má sjá tvær þeirra:
Hótel Ísland. Húsið stóð á horni Aðalstrætis og Austurstrætis, gengt þar sem nú er Moggahúsið.
Horft inn Aðalstræti að Hótel Íslandi. Þarna má sjá fjölda húsa sem eru horfin. Þar sem var Brauns-verslun stendur nú hið hryllilega hús sem kallast Miðbæjarmarkaðurinn með brunagafli sem Sigmundur nefnir í bloggi sínu.