Mörg falleg hús hafa verið eyðilögð í Reykjavík, en við höfum líka verið iðin við að skemma inniviði húsa.
Mér verður oft hugsað til gamla Mímisbars sem var á Hótel Sögu. Hann var eins og út úr einni af fyrstu James Bond myndunum, með lofti þar sem blikuðu stjörnur. Maður beið eiginlega eftir því að Frank Sinatra kæmi og hæfi upp raust sína – en auðvitað var það Raggi Bjarna sem skemmti, hver annar?
Hér er mynd af öðrum sal sem var eyðilagður.
Þetta er Nýja bíó árið 1920. Það er í glæsilegum stíl sem minnir á art deco. Svona var húsið enn þegar ég fór þarna í bíó, anddyrið var líka einstaklega fallegt með glæsilegum speglum og stórum stigagangi.
En svo komust vandalar í þetta. Allar innréttingarnar voru rifnar út á níunda áratugnum. Loks var allt málað svart og staðurinn kallaður Tunglið. Hann var vinsæll um tíma, en mér fannst alltaf ömurlegt að koma þangað inn og sjá viðurstyggð eyðileggingarinnar.
Að lokum brann húsið. Það var endurbyggt að hluta til fyrir nokkrum árum, en allur gamli sjarminn er á bak og burt.
Myndina er að finna á Facebook-síðunni 101Reykjavik.