Stundum er allt í lagi að anda aðeins áður en ráðist er í næsta upphlaup.
Maður veit það úr nútímasamfélagi að maður notar ýmis ráð til að ná í fólk. Og ef ekki næst í það fljótt, þá grípur um sig mikil óþolinmæði.
Það eru sendir tölvupóstar og símskilaboð í allar áttir.
Þannig lágu greinilega alltaf fyrir eðlilegar skýringar á því hvers vegna tölvupóstur var sendur yfirmanni þess sem stendur að undirskriftasöfnuninni gegn lækkun veiðigjaldsins og átti fund með ráðherra í dag.
Það hefði verið hægur leikur að nálgast þessar skýringar. Þurfti kannski ekki nema eitt símtal eða tölvupóst, en í staðinn var farið í ruglleiðangur til að reyna að sýna að þarna væru á ferðinni pólitískar ofsóknir.
Það er lítill sómi að því – menn verða að finna sér eitthvað betra en þetta ef þeir ætla að láta taka mark á sér. Hætta er líka á að upphlaupin fari að virka eins og í sögunni „Úlfur, úlfur.“