Ríkisstjórnin fer að mörgu leyti klaufalega af stað. Kannski má kenna reynsluleysi um.
Raunar virðist hinn yfirlýsingaglaði landbúnaðar-, sjávarútvegs og umhverfisráðherra hafa róast aðeins. Það er líklegt að hann hafi verið beðinn um að hafa sig hægan.
En sumir aðrir hafa farið mikinn.
Það er til dæmis sjálfstæðisþingmaðurinn Vilhjálmur Árnason, sem talaði um það í jómfrúrræðu sinni að nauðsynlegt væri að lögreglan vopnaðist rafbyssum.
Svo var það Haraldur Einarsson, framsóknarþingmaður frá Urriðafossi í Flóa, sem í einni fyrstu þingræðu sinni talaði um virkjanakosti í Neðri-Þjórsá og hvað rammaáætlun sé ómöguleg. Nú er það svo að fjölskylda Haraldar hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því að þarna verði virkjað.
Klaufalegust eru þó mistökin sem fela í sér að almenningur hefur tengt saman lækkun á veiðigjaldi og afnám ókeypis tannlækninga fyrir börn. Tilfinningin er sú að þarna hafi verið valið á milli – börnunum með tannskemmdirnar fórnað svo útgerðarmennirnir þurfi ekki að sjá á bak gróða.
Það má vera rangt mat – en svona lítur það út.