Sjálfstæðismenn verða varla hrifnir ef Ólafur Ragnar Grímsson afhendir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni umboð til stjórnarmyndunar í dag.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur og telur sig eiga að fá umboðið.
Þess er þó að gæta að það er ekki til neitt sem heitir „forsætisráðherraefni“ forsetans eins og einhver skrifaði í gær. Þótt Sigmundur fái umboðið er ekki þar með sagt að hann verði forsætisráðherra, það er nokkuð sem er samið um milli stjórnmálaflokka. Það er samt ljóst að Sigmundur er sérstaklega í náðinni á Bessastöðum.
Það er margt rætt um stjórnarmyndun í dag. Morgunblaðið fagnar og telur að lítið mál verði að mynda ríkissjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
En svo eru aðrir sem telja að samningaviðræður verði erfiðar. Sjálfstæðisflokkurinn geti einfaldlega ekki gengið að kosningaloforðum Framsóknar. Framsókn muni þurfa að gefa heilmikið í því efni. En það myndi ganga í berhögg við margítrekaðar yfirlýsingar forystumanna í Framsóknarflokknum.
Ólafur Ragnar talaði um nauðsyn sáttastjórnar. Það er auðvitað möguleiki fyrir Sjálfstæðisflokk eða Framsókn að vinna yfir miðjuna, og þá væntanlega með Samfylkingu og Bjartri framtíð. Vinstri grænir eru varla tilkippilegir – það er of mikil stóriðja í spilunum.
Eitt af því sem gæti staðið í veginum er mikil persónuleg andúð sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Guðmundur Steingrímsson hafa hvor á öðrum. Það er sagt að Guðmundur vildi fremur bryðja gler en vinna með Sigmundi.
Þetta yrði ekki vandamál ef Sjálfstæðisflokkurinn ætti í hlut. Bjarni Benediktsson þykir hafa þannig skap að hann ætti að geta unnið með öllum. Hins vegar eru sterk öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem leggja algjöra fæð á Samfykinguna og myndu berjast hart gegn samstarfi við hana. Þetta eru reyndar sömu öflin og hafa gert Bjarna lífið leitt árum saman – hann skuldar þeim nákvæmlega ekki neitt.
Þá er sagt ekki þurfi að vera svo erfitt að mynda ríkisstjórn með Samfylkingu og Bjartri framtíð. Samfylkingin sé svo veikluð að hún geti ekki gert miklar kröfur – helst þá um að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald ESB-viðræðna verði haldin nokkuð fljótlega – en Björt framtíð yrði ánægð að fá til dæmis ráðuneyti mennta- og menningar.
Enn er þó auðvitað líklegast að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn myndi ríkisstjórn. En það þarf ekki að vera auðvelt. Og í samningaviðræðunum er ágætt fyrir flokkana að hafa önnur spil í bakhöndinni.