Sjötti þáttur Vesturfara var sýndur í gærkvöldi. Hann má sjá hér á vef Ríkisútvarpsins.
Þátturinn fjallar um líf íslensku innflytjendanna í Winnipeg, þar var um tíma stærsta þéttbýli Íslendinga í heiminum.
Menningarlífið var fjörugt, en Íslendingarnir stóðu líka í deilum um aðskiljanleg mál. Þrasgirni landans er semsagt ekki ný.
Um þetta orti vísnaskáldið góðkunna Káinn, en hann bjó í Vesturheimi.
Þetta er ekki þjóðrækni
og þaðan af síður guðrækni
heldur íslensk heiftrækni
og helvítis bölvuð langrækni.
Þáttinn má sjá með því að smella hér.
Meðal efnis í 6. þætti Vesturfara var mögnuð túlkun kanadísk/íslensku söngkönunnar Christine Antenbring á hinu vinsæla söngljóði Draumalandinu – sem einmitt fjallar um heimþrá og land sem birtist í hillingum, líkt og Ísland í hugum margra Vestur-Íslendinga.