Hún er skemmtileg þessi ljósmynd sem má sjá í glugga bókabúðar Máls & menningar við Laugaveg.
Sú Mál & menning sem þar er nú er ekki alveg sama og var þá, því á árunum sem myndin var tekin starfaði bókabúðin í tengslum við samnefnt bókaforlag.
Þarna sjást afgreiðslukonurnar Anna Einarsdóttir og Ester Benediktsdóttir, sem lengi störfuðu í Máli & menningu – líklega eru þær með útgáfubækur ársins 1972. Þarna má sjá skáldsöguna Gunnar og Kjartan eftir Véstein Lúðvíksson, síðara bindi þeirrar bókar kom einmitt út það ár.
Gunnar og Kjartan var held ég fyrsta íslenska nútímaskáldsagan sem ég las. Ég var ekki nema ellefu ára þegar fyrra bindið kom út, en bókin var talsvert auglýst í sjónvarpi og mér fannst eitthvað heillandi við hana. Ég hef ekki lesið hana síðan, en mig rámar enn í lýsingarnar á afar menningarlega sinnuðum menntaskólanemum – Kjartan var að reyna að halda í við þá í bókinni.
Annars eru bækurnar ekkert slor. Við sjáum Hreiðrið eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, Veðrahjálm eftir Þorstein frá Hamri, Ljóðasafn Jóhannesar úr Kötlum, bók eftir Þórberg Þórðarson og Lazarus frá Tormes sem var þýdd af Guðbergi Bergssyni.