Raggi Bjarna og Leonard Cohen eru jafnaldrar. Það er reyndar Sophia Loren líka. Þau eru öll áttræð þessa dagana.
Raggi og Cohen virka dálítið eins og þeir séu hvor af sinni kynslóðinni. En Raggi byrjaði reyndar svo ungur, meðan Cohen var enn að leita að sjálfum sér og reyna fyrir sér sem rithöfundur.
Raggi er meira eins og samtímamaður Sinatra og Dean Martin. Hann var bara tvítugur þegar hann söng fyrst inn á plötu – það var 1954.
Lögin með honum voru alltaf í útvarpinu þegar ég var strákur og ég man að mér fannst þau yfirleitt skemmtileg. Það sama verður ekki sagt um alla músíkina sem þá hljómaði á Gufunni.
Raggi er einstakur ljúflingur og heiðursmaður. Ég hef fengið að syngja með honum á sviði – mér fannst mikið til þess koma.
Fyrir nokkrum árum voru haldnir tónleikar í Salnum í Kópavogi með lögum eftir Jón Múla. Raggi var þar og ég nefndi við hann að þegar ég var lítill strákur hefði ég átt plötu með lögum úr söngleiknum Járnhausnum – eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni.
Þetta var lítil 45 snúninga plata í fallegu umslagi. Hún var gefin út 1965. Raggi söng á plötunni ásamt Ellý Vilhjálms og Ómari Ragnarssyni. Það eru heil sex lög á plötunni og hann sagði mér að nauðsynlegt hefði verið að skera af lögunum inngangsspil og slíkt til að koma þeim öllum að.
Nokkru síðar sendi Raggi mér eintak af plötunni, ég hafði glatað mínu. Þetta var afskaplega fallegt af honum en mér finnst eins og ég hafi hálfpartinn gleymt að þakka almennilega fyrir mig.
En ég geri það núna, takk Raggi, fyrir plötuna – og sönginn.