fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

Frá Patró í Saurbæinn

Egill Helgason
Þriðjudaginn 2. september 2014 21:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er gaman að ferðast um Ísland – og ólíkt því sem sumir virðast halda hef ég gert heilmikið af því.

Við ókum í efnisöflunarferð fyrir Kiljuna vestur á Patreksfjörð í gær. Það var ausandi rigning mestalla leiðina, en stytti sem betur fer upp þegar við komum á áfangastað. Við tókum upp efni á Patreksfirði, Rauðasandi og í Sauðlauksdal.

Við gistum á nýju Fosshóteli á Patreksfirði síðustu nótt. Þar borðum við á veitingahúsi sem nefnist Fjall og fjara.

Maturinn var afbragð, ég fékk ljúffenga fisksúpu, fullkomlega eldaðan þorsk, ísinn sem var á eftir var heimatilbúinn. Og cappuccinoið var gott. Þjónustan fagmannleg í alla staði. Staðurinn er fallega innréttaður – maður horfir út á hafið sem var heldur dimmt að sjá í gærkvöldi.

Þetta eru framfarir. Jón Víðir kvikmyndatökumaður sem er með í för rifjaði upp að hann hefði verið á Patreksfirði fyrir mörgum árum og þá var ekki hægt að fá neitt nema sjoppufæði. Engan fisk í þessu mikla sjávarútvegsplássi.

Í dag ókum við til baka, fórum á Reykhóla og í Saurbæinn þar sem ég skrifa þetta. Vegirnir þarna á milli eru býsna vondir, en Vegagerðin stendur í miklum framkvæmdum. Maður þarf að þræða firðina. Við sáum yfir í hinn umdeilda Teigsskóg þar sem hefur verið fyrirhugað að leggja veg – ekki treysti ég mér til að hafa skoðun á því hvort það er skynsamlegt eða ekki.

Í Saurbæ gistum við á Hótel Ljósalandi sem stendur við þjóðveginn á leiðinni vestur á firði. Hér hafa ung hjón tekið yfir hótel og sjoppu og eru að endurbyggja af miklum myndarskap. Við fengum alvöru hamborgara, sem jafnast á við það besta sem maður fær í bænum – og herbergin eru rúmgóð og björt.

Saurbærinn er afskaplega falleg sveit. Flestir bruna þar í gegn á leið vestur, en hérna er mild náttúrufegurð og kyrrð. Stutt er að gamla höfuðbólinu Skarði á Skarðströnd. Hér hafa margir andans menn lifað, Steinn Steinarr, Stefán frá Hvítadal og sagnaritarinn mikli, Sturla Þórðarson.

IMG_5007

Kvöld í Saurbæ. Útsýni frá Hótel Ljósalandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“