Það er gaman að ferðast um Ísland – og ólíkt því sem sumir virðast halda hef ég gert heilmikið af því.
Við ókum í efnisöflunarferð fyrir Kiljuna vestur á Patreksfjörð í gær. Það var ausandi rigning mestalla leiðina, en stytti sem betur fer upp þegar við komum á áfangastað. Við tókum upp efni á Patreksfirði, Rauðasandi og í Sauðlauksdal.
Við gistum á nýju Fosshóteli á Patreksfirði síðustu nótt. Þar borðum við á veitingahúsi sem nefnist Fjall og fjara.
Maturinn var afbragð, ég fékk ljúffenga fisksúpu, fullkomlega eldaðan þorsk, ísinn sem var á eftir var heimatilbúinn. Og cappuccinoið var gott. Þjónustan fagmannleg í alla staði. Staðurinn er fallega innréttaður – maður horfir út á hafið sem var heldur dimmt að sjá í gærkvöldi.
Þetta eru framfarir. Jón Víðir kvikmyndatökumaður sem er með í för rifjaði upp að hann hefði verið á Patreksfirði fyrir mörgum árum og þá var ekki hægt að fá neitt nema sjoppufæði. Engan fisk í þessu mikla sjávarútvegsplássi.
Í dag ókum við til baka, fórum á Reykhóla og í Saurbæinn þar sem ég skrifa þetta. Vegirnir þarna á milli eru býsna vondir, en Vegagerðin stendur í miklum framkvæmdum. Maður þarf að þræða firðina. Við sáum yfir í hinn umdeilda Teigsskóg þar sem hefur verið fyrirhugað að leggja veg – ekki treysti ég mér til að hafa skoðun á því hvort það er skynsamlegt eða ekki.
Í Saurbæ gistum við á Hótel Ljósalandi sem stendur við þjóðveginn á leiðinni vestur á firði. Hér hafa ung hjón tekið yfir hótel og sjoppu og eru að endurbyggja af miklum myndarskap. Við fengum alvöru hamborgara, sem jafnast á við það besta sem maður fær í bænum – og herbergin eru rúmgóð og björt.
Saurbærinn er afskaplega falleg sveit. Flestir bruna þar í gegn á leið vestur, en hérna er mild náttúrufegurð og kyrrð. Stutt er að gamla höfuðbólinu Skarði á Skarðströnd. Hér hafa margir andans menn lifað, Steinn Steinarr, Stefán frá Hvítadal og sagnaritarinn mikli, Sturla Þórðarson.
Kvöld í Saurbæ. Útsýni frá Hótel Ljósalandi.