Merkileg er tölfræðin í frétt frá Samtökum atvinnulífsins – þar sem brugðist er við óánægju vegna mikils launaskriðs forstjóra.
Reyndar er því haldið fram að skýringin kunni að vera sú að launalækkanir forstjóranna á hruntímanum séu að ganga til baka.
Eins og aðrir hafi ekki þurft að þola kjaraskerðingu þá!
Svo er birt línurit – sem maður veit svosem ekki hvað er mikið að marka – en á því kemur fram að launahækkanir forstjóra frá 2006 hafi verið 43,6 prósent en hækkanir á almennum vinnumarkaði 45,2 prósent.
Tökum launamann sem hafði 200 þúsund krónur á mánuði 2006. Laun hans hafa hækkað í 290 þúsund á þessum árum.
Tökum forstjóra sem hafði 2 milljónir á mánuði 2006. Laun hans hafa hækkað í 2,9 milljónir á þessum árum.
Sé þetta reiknað yfir í árslaun hefur launamaðurinn hækkað um rétt rúma 1 milljón, en forstjórinn hefur hækkað um 10 milljónir.
Prósentureikningurinn segir semsagt ekki alla söguna.