Nú er ljóst að Pollapönksgallar frá Henson verða tískufatnaðurinn í sumar.
Pollapönkarar komu, sáu og sigruðu á sviðinu í Kaupmannahöfn. Þetta var verulega kraftmikill performans – og fínn húmor í honum.
En Hensongallarnir eru ekki alveg nýir af nálinni.
Ég var strákur þegar Halldór Einarsson fór að sauma Henson-fatnað í verslunarhúsnæði á Sólvallagötu 9. Þetta þótti nokkuð ævintýralegt. Halldór var þá kunnur fótboltamaður, Valsari.
Ég og Oddur Sigurðsson vinur minn vorum miklir íþróttaáhugamenn. Oddur náði reyndar þeim árangri seinna að keppa á tvennum Ólympíuleikum og átti lengi Norðurlandamet í 400 metra hlaupi.
Við fórum til Halldórs og fengum hjá honum hvor sinn Hensongallann – þeir voru fallega gulir. Við vorum mjög ánægðir með þennan fatnað – mættum í honum á æfingar.
Þetta hefur verið svona 1974. Um það leyti birti Henson þessa auglýsingu.
Og hér er Henson framleiðslan eins og hún er í dag. Þessi samsetta mynd er af vef Eiríks Jónssonar, hann segir að Pollapönksgallar mokist út. Gallinn sem við Oddur áttum var ekki ósvipaður þeim sem Guðni er í, lengst til hægri á myndinni.