fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Eyjan

Pútínisminn: Snilldargrein Pawels

Egill Helgason
Föstudaginn 28. mars 2014 10:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn gáfaðasti maður sem skrifar í íslenska fjölmiðla, Pawel Bartozsek, er af pólskum ættum. Þess vegna hefur hann aðra sýn á heimsmálin en við sem erum alin upp hér úti í Ballarhafi. Sýn Pawels er mið-evrópsk, hún er mótuð af svæði þar sem hafa verið eilífar styrjaldir og átök, þar sem stórveldi hafa farið sínu fram með yfirgangi, þar sem lýðræði hefur varla þekkst.

Pawel skrifar grein um Rússland og Úkraínu í Fréttablaðið í dag. Greinin er svo góð að hún ætti að birtast í heimsblöðum eins og New York Times, Guardian og Le Monde. Í hana verður vitnað hér á eftir, en fyrst er hér smábrot úr grein sem birtist í breska tímaritinu New Statesman og er eftir Angus Roxburgh.. Þar segir frá áróðrinum sem stöðugt dynur á Rússum, smitast reyndar um alla heimsbyggðina, og er ekki síður grímulaus en á tíma Sovétríkjanna.

„Pólitískir tæknimenn“ Pútíns hafa undirbúið myndflötinn vandlega fyrir hið blóðuga málverk sem er dregið yfir evrópska meginlandið. Ef ég væri dæmigerður rússneskur sjónvarpsáhorfandi, sem hefði engan áhuga á því að leita mér annarra upplýsinga, myndi ég skjálfa yfir því sem er sagt að sé að gerast í bræðraríkinu Úkraínu. Þetta er eins og Mikla Föðurlandsstríðið upp á nýtt. Leðurstígvél, brúnar skyrtur, hakakrossar, kylfur; þeir eru að banna fólki að tala rússnesku; þeir voru einmitt að leiða fasískan milljónamæring upp á sviðið á Maidan (Frelsistorginu í Kiev, suðupotti byltingarinnar) sem heimtar að Rússar verði „skotnir í hausinn“- og fjöldinn fagnaði; „dauðasveitir“ eru teknar til starfa, sagði fréttamaðurinn, systir mín býr í Donetsk og frændi minn í Kiev – þau verða öll skotin, og nú eru fasistabullurnar búnar að drepa tvo…. sjáið, þetta er að byrja….

Meira að segja á mælikvarða sjónvarps Pútínstímans (já, á mælikvarða sjónvarps Sovéttímans) er áróðurinn algjörlega yfirgengilegur…

En aftur að grein Pawels. Hún ber heitið Pútínisminn. Þarna er fjallað slíkum þunga og skynsemi um aðalatrið þessara alvarlegu alþjóðadeilna að ég ætla að leyfa mér að birta hana í heild sinni. Þeir mættu kannski hugsa sinn gang sem hafa verið að finna alls konar afsakanir fyrir framferði Rússa. Pawel dregur þá sundur og saman í háði.

Forseti Íslands skammaði norskan aðstoðarráðherra fyrir að hafa notað fund á vegum Norðurskautsráðsins til að fordæma framgöngu Rússlands gagnvart Úkraínu. Norðurskautsráðið væri ekki rétti vettvangurinn til að ræða stöðuna á Krímskaga. Þegar Ólafur hitti Pútín fyrir Ólympíuleikana þá var það heldur ekki rétti vettvangurinn til að gagnrýna stöðu samkynhneigðra í Rússlandi. Ætli við þurfum þá ekki bara að bíða eftir milliríkjaráðstefnunni sem er með eftirfarandi dagskrá:

1. Gestgjafi setur ráðstefnuna.
2. Ríkin drulla yfir mannréttindabrot hvert annars.
3. Fundi slitið, kampavínsskemmtun fram á kvöld.

Í skugga Ólympíueldsins
Fyrir sjö vikum hófust Ólympíuleikarnir í Sotsjí. Þeir stóðu í tvær og hálfa viku. Síðan tók við stutt hlé og svo hófust á Ólympíuleikar fatlaðra. Þeim lauk um þarseinustu helgi. Á meðan teiknaði Pútín heimskortið upp á nýtt.

Þeir sem halda að öll sýningin í kringum Sotsjí-leikana hafi verið til einskis átta sig ekki á því að markhópur sýningarinnar var ekki endilega almenningur á Vesturlöndum. Hin tilkomumikla opnunarhátíð átti ekki síst að minna íbúa Rússlands á mikla hernaðarsögu landsins og draga upp þá ímynd að hér væri á ferð öflugt og nútímalegt land sem önnur ríki heimsins reikna með. Þess vegna var þátttaka sumra íslenskra ráðamanna í þessari sýningu ekki til eftirbreytni.

Frekari landvinningar fram undan
Þegar stjórnmálamenn tala er oft ástæða til að hlusta. Þegar Pútín heldur ræðu í rússneska þinginu og talar um Kíev sem „móður allra rússneskra borga“ þá þýðir það auðvitað ýmislegt. Vladímír Zírínovskí talar um sundurlimun Úkraínu og mætir lítilli mótspyrnu í þinginu. Rússneskir fjölmiðlar birta stöðugt svona „Vissir þú að?“-kort þar sem Úkraína er sýnd, fyrr og nú. Sýnt hvaða ríki hvaða hluti hennar tilheyrði, hvaða tunga sé töluð hvar, allt til að skapa þá ímynd að þetta ríki sé nú eiginlega ekki neitt neitt.

Fyrir nokkrum dögum voru lagðar fram stjórnarskrárbreytingar á rússneska þinginu. Þær voru sendar Feneyjanefnd Evrópuráðsins til umsagnar. Í stuttu máli fjalla þær um að heimilt verði að innlima hérað í öðru ríki ef „það eru engin skilvirk stjórnvöld í ríkinu sem Rússneska sambandslýðveldið getur gert alþjóðasamninga við“. Nánast öll ríki sem tilheyrðu eitt sinn Sovétríkjunum hafa stóra rússneska eða rússneskumælandi minnihluta innan sinna landamæra. Ætli að það sé furða að fólk í þeim ríkjum sé hrætt við eftirfarandi atburðarás?

1) Eitthvað gerist í höfuðborg nágrannaríkisins sem Pútín telur að beinist gegn sínum hagsmunum.
2) Rússneski herinn hertekur hluta ríkisins. Segist gera það til verndar minnihlutahópum.
3) Haldin er þjóðaratkvæðagreiðsla með viku fyrirvara. Hermenn ganga um göturnar.
4) Hluti af lýðræðisríki er innlimaður inn í einræðisríki.
5) Hálfgildingsgáfumenni á Vesturlöndum yppa öxlum. Minna fólk á að Bandaríkin séu stundum vond.

Feneyjanefndin hakkaði tillögurnar í sig. Þær voru dregnar til baka. En anda þeirra var í einu og öllu fylgt við innlimun Krímskagans.

Fjarar undan leifum lýðræðis
Því miður er Rússland að færast fjær lýðræði með hverju ári. Nýleg lög skylda ýmis félagasamtök til að skrá sig sem erlenda „agenta“. Stjórnvöld eru síðan með sín eigin umhverfisverndarsamtök, sínar eigin kvennahreyfingar. Litið er á aðra sem njósnara vestursins. Pressan er ekki lengur frjáls. Blaðamenn sem gagnrýna Pútín hverfa. Tónlistarkonur sem storka stjórnvöldum eru sendar í Gúlagið.

Vel gefið fólk á Íslandi mun kannski seint trúa því að Pútín sé góður og viðkunnanlegur gaur. En hlustar kannski á málflutning rússneskra fjölmiðla, sem ratar víða, og hugsar með sér: „Vá, þetta er greinilega flókið mál. Ættum við nokkuð að vera með puttana í einhverju sem við skiljum ekkert í?“

Mikilvægur stuðningur
Pútín þætti áreiðanlega vænt um ef sem flestir sniðgengju úkraínsk stjórnvöld. Það myndi auðvelda honum frekari sundurlimun Úkraínu. Það var því gott hjá Gunnari Braga að fara til Úkraínu. Menn ráðast síður á ríki meðan vestrænir utanríkisráðherrar sofa á hótelum höfuðborgarinnar. Sá móralski stuðningur skiptir máli og það er gott að Gunnar Bragi hafi veitt hann. Á meðan þegir forseti Íslands milli þess sem hann gagnrýnir þá sem gagnrýna Pútín. Með vísan í fundarsköp.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir stjórnarandstöðuna vannýtta auðlind og vill „lottóvæða“ þingmenn

Segir stjórnarandstöðuna vannýtta auðlind og vill „lottóvæða“ þingmenn
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Golfhöggið á Hönnu Katrínu geigaði – „Kannski komumst við í fyrramálið“

Golfhöggið á Hönnu Katrínu geigaði – „Kannski komumst við í fyrramálið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þetta er ræðukóngurinn á yfirstandandi þingi – 10 málglöðustu þingmennirnir hafa samtals talað í 182,4 klukkustundir

Þetta er ræðukóngurinn á yfirstandandi þingi – 10 málglöðustu þingmennirnir hafa samtals talað í 182,4 klukkustundir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Flutti sögulega jómfrúarræðu á Alþingi í gær og fetaði í fótspor móður sinnar

Flutti sögulega jómfrúarræðu á Alþingi í gær og fetaði í fótspor móður sinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Krónutjónið nemur 500 milljörðum árlega

Sigmundur Ernir skrifar: Krónutjónið nemur 500 milljörðum árlega
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Ágúst Borgþór skrifar: Hrausti sjúklingurinn – Erum við að tala niður heilbrigðiskerfið?

Ágúst Borgþór skrifar: Hrausti sjúklingurinn – Erum við að tala niður heilbrigðiskerfið?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bygging á Orkureitnum fær Svansvottun 4 fyrst allra húsa á Norðurlöndunum

Bygging á Orkureitnum fær Svansvottun 4 fyrst allra húsa á Norðurlöndunum