Kvikmyndin The Grand Budapest Hotel er frábær skemmtun og algjör veisla fyrir augað.
Þarna er horfið aftur til Mið-Evrópu, þeirrar Mitteleuropa sem leið undir lok með nasismanum, í heiminn sem er lýst í verkum Stefans Zweig. Myndin er sögð byggð lauslega á verkum hans.
Sagan er hæðin og gáskafull, að hætti leikstjórans Wes Anderson. Vendingarnar í henni skipta ekki höfuðmáli, heldur kátlegar og dálítið tragískar persónurnar sem tilheyra þessum hverfandi og hnignandi heimi.
Og svo eru það leiktjöldin og búningarnir – í raun hefur maður varla séð annað eins í kvikmynd. Rammarnir koma hver á eftir öðrum eins og myndlistarverk og það er ekki tölvugrafík af þeirri tegund sem maður er að verða ónæmur fyrir.
Umhverfið er eins og áður segir gamla Mið-Evrópa með höllum sínum og hótelum, þröngu götum, skuggasundum, gamaldags siðvenjum, undirferli og samsærum, fágun og hnignun í senn. Anderson endurvekur þennan heim og leikur sér með hann á sinn undirfurðulega hátt.