Stundum segja menn vitleysu sem hljómar vel, en er engu minni vitleysa fyrir það.
Vitnað er í orð grænlensks stjórnmálamanns, Josefs Motzfeldt, sem sagði á fundi í Reykjavík að Evrópa væri „langt fra verden“.
Langt frá heiminum. Langt frá hvaða heimi?
Varla frá heimi þeirra 739 milljón manna sem byggja þessa heimsálfu. Þar af tilheyra um 510 milljónir manna Evrópusambandinu.
Þarna á meðal eru nokkur ríki sem eru meðal hinna auðugustu í heiminum. Og samkvæmt nýjum hamingjumælingum Sameinuðu þjóðanna er fólk ánægðast með hlutskipti sitt á Norðurlöndunum og í sumum af ríkjum Evrópusambandsins.
Þarna höfum við Íslendingar, 320 þúsund manna þjóð, risastóran markað fyrir afurðir okkar.
Svo getum við skoðað landfræðilega stöðu okkar aðeins nánar.
Einu sinni vorum við langt frá öllu, og það var okkar ógæfa. Til landsins voru nánast engar samgöngur um margra alda skeið. (Við skulum ekki tala um Grænland þaðan sem enginn kom eða fór í mörg hundruð ár.)
Það hefur breyst og við liggjum um þjóðbraut þvera milli Evrópu og Ameríku. Við höfum ekki sömu pólitísku vigt og var á tíma Kalda stríðsins, en Ísland er orðinn miklu fjölfarnari staður en var þá.
Það mun heldur ekki breytast í bráð að frá Íslandi er styst að fara til London, Edinborgar, Osló, Kaupmannahafnar, Amsterdam, Dublin, Berlínar og Parísar af erlendum stórborgum.
Og fólkið sem er að ferðast hingað kemur að mestu leyti frá þessum stöðum – og frá austurströnd Bandaríkjanna.
Kortið – sem er fengið af sjálfri heimasíðu Josefs Motzfeldt – sýnir þetta nokkuð gögglega.
Það mun víst ekki breytast í bráð að frá Íslandi er styst að fara til Edinborgar, London, Osló, Kaupmannahafnar Stokkhólms, Amsterdam, Berlínar og Parísar af erlendum stórborgum – og fólkið sem er að ferðast hingað kemur að mestu leyti þaðan. Kortið sýnir þetta reyndar mjög glögglega. Þess er nokkuð langt að bíða verði til dæmis miklir fólksflutningar milli Íslands og Longyearbyen, Thule, Hammerfest eða Jan Mayen – en reyndar eru nokkur flug á viku til Nuuk.
Ferðaþjónusta er orðin stærsta atvinnugrein á Íslandi. Hún byggir á samgöngum við fjölmenn og þróuð lönd. Við veiðum fisk, og þar er hið sama uppi á teningnum, verðmætasti markaðurinn er í ríkum og þéttbýlum nágrannalöndum. Draumar okkar um framtíðina liggja svo í fyrirtækjum eins og Össuri, CCP, Plain Vanilla, hugviti og hátækni – aftur eru það samskiptin við hinn þróaða markað sem skipta sköpum.