Í frétt í Morgunblaðinu í gær var fjallað um „stóraukna ásókn heimila“ í hlutabréf.
Maður trúir þessu varlega, aðeins hálfum áratug eftir mesta hlutabréfahrun sögunnar, þegar íslenski hlutabréfamarkaðurinn þurrkaðist út, fór á stuttum tíma úr 9040 stigum niður í 300.
Hér hafa verið í gangi tilraunir til að endurreisa hlutabréfamarkaðinn, en hann er afskaplega grunnur, það eru fá fyrirtæki á honum, og lífeyrissjóðirnir ráða ferðinni. Þeir eru að selja á milli sín í fyrirtækjunum. Nokkrir klárir fagfjárfestar fljóta með og geta grætt vel – en þeir falla ekki undir skilgreininguna „heimili“.
Magnús Harðarson í Kauphöllinni segir að „tiltrú almennings á hlutabréfamarkaðnum sé einfaldlega að aukast“
Við erum hér í lokuðu hagkerfi þar sem flæða um krónur sem eru afskaplega verðlitlar, í raun nokkurs konar gervipeningar.
Í svoleiðis árferði ætti að vara almenning – heimili – við því að spila á hlutabréfamarkaði.
Því hlutabréfaviðskipti á Íslandi hafa lengstum verið hreint spilavíti – og heimilin eiga varla heima á slíkum stöðum. Eða eru menn búnir að gleyma gráa markaðnum, Oz og deCode, útgerðarfélögunum sem fóru á markað og hurfu þaðan aftur, Baugsfyrirtækjunum sem gerðu hið sama, og svo bönkunum sem tjökkuðu upp hlutabréfaverð sitt með linnulausri markaðsmisnotkun?