Það er ekki sérlega gagnlegt að fara í miklar og gagnkvæmar ásakanir vegna þess hverjar niðurstöðurnar í makrílviðræðunum urðu. Það hefur ekki orðið nein breyting frá stefnu fyrri ríkisstjórnar. Íslendingar verða að skilja að þeir eru ekki stórveldi. Í alþjóðlegu samhengi og gagnvart Evrópusambandinu hafa Norðmenn miklu meiri vikt en við – EES samningurinn er til vegna Norðmanna og það eru þeir sem borga megnið af kostnaðinum við hann.
Það sem hefur hins vegar gerst er að staða okkar í utanríkismálum birtist snögglega í ljósi napurs raunsæis. Næstu nágrannaþjóðir okkar voru til í að láta okkur lönd um leið þegar það hentaði þeim. Samt hefur mikið verið rætt um það að Ísland ætti að efla samstarfið við þær – að þar lægi framtíðin í utanríkismálunum, í hinum vestnorræna heimi og á norðurslóðum. (Þar höfum við reyndar ekki meiri vigt en svo að okkur er ekki hleypt að háborði hinna eiginlegu strandríkja, ríkjanna fimm sem eiga land að Norður-Íshafinu.)
Á sama tíma hefur það gerst að annað ríki sem við áttum að fara að leggja rækt við, Rússland, er komið langleiðina úr samfélagi siðaðra þjóða með framferði sínu í Úkraínu. Það er óhugsandi á þessum tímum annað en að hafa allan vara á í samskiptum við Rússland.
Þetta þýðir einfaldlega að ýmislegt sem menn hafa verið að gefa sér varðandi utanríkisstefnuna stenst ekki, það er byggt á hugarflugi fremur en hagsmunamati. Það þarf að leggja miklu meiri hugsun og vinnu í utanríkisstefnuna, ekki bara spinna hana af fingrum fram í dagsins önn, eins og kann að henta í stjórnmálabaráttunni.
Og í þessu sambandi styrkjast ansi mikið efasemdirnar um hvort rétt sé að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið – og sé kannski ekki betra að láta vera að taka stórar ákvarðanir á þessum tímapunkti?