Með máli Más Guðmundssonar er loks komið eitthvað sem getur beint augunum frá ríkisstjórninni – og aðeins létt af henni þrýstingnum.
Því Már getur ekki talist vera innundir hjá stjórninni – hann er eiginlega í hinu liðinu. Andstæðingar stjórnarinnar hafa ósjálfráða tilhneigingu í þá átt að verja Má.
En það er afar erfitt. Þetta virkar eins og hreint sjálfskaparvíti, þar sem fégræðgi nær yfirhöndinni, og auðvitað ekki við öðru að búast en að Mogginn slái þessari frétt upp.
Stjórnarformaður Seðlabankans, Lára V. Júlíusdóttir, sérstök trúnaðarkona Jóhönnu Sigurðardóttur, finnur upp á því að láta bankann greiða kostnaðinn af sérlega misráðnum málaferlum Más Guðmundssonar bankastjóra – að því er virðist án þess að spyrja bankastjórnina eða ráðherra. Manni heyrist altént að Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafi ekkert vitað.
Gerir Lára þá alveg upp á sitt eindæmi – eða var Már sjálfur með í ráðum? Þrýsti hann á um að þessir peningar yrðu greiddir af bankanum? Hvaða skýringar gefur hann?
Mér skilst að már verði hjá Sigurjóni á Sprengisandi í fyrramálið. Það verður forvitnilegt að heyra. Því eins og er virkar staða hans afar tæp.