Björn Bjarnason skrifar um það á bloggsíðu sinni að Frakkar vilji banna Netflix og bandarískar efnisveitur af því tagi – Björn spyr svo hvort Frakkar vilji banna Netflix innan alls Evrópusambandsins?
Hér er stór menningarpólitísk spurning.
Nú er það til dæmis svo að tugþúsundir Íslendinga horfa á sjónvarpsefni og kvikmyndir í gegnum Netflix, iTunes og Hulu Plus. Það væri forvitnilegt að vita hversu stór þessi hópur er orðinn.
Þetta er reyndar á mörkum hins löglega – þ.e. þessar efnisveitur starfa ekki á íslenskum markaði, en hægt er að ná aðgangi að þeim eftir krókaleiðum.
En þarna streymir inn erlent kvikmyndaefni, á erlendum tungumálum, og allt er það ótextað. Barnaefni er ekki talsett.
Börn nota þessar efnisveitur mjög mikið. Í mörgum tilvikum eru þau hætt að horfa á íslenskt sjónvarp.
Er kannski ástæða til að ræða aðeins um framtíð íslenskrar tungu í þessu sambandi?
Þarna er hún eiginlega fallin ein varnargirðingin sem hefur verið reist um hana og fólst stífri kröfu um að erlent sjónvarpsefni skyldi vera textað.
Það þarf ekki flókinn búnað til að ná í Netflix á Íslandi, nettengingu, lítinn kubb og bandaríska ip-tölu.