The Economist birtir leiðara um Argentínu, þetta stóra land sem eitt sinn var vonarstjarna Suður-Ameríku, með hærri þjóðartekjur en Þýskaland og Frakkland. Argentína laðaði til sín fólk rétt eins og Kalífornía.
En málin þróuðust á verri veg, Economist segir að mesti óttinn í ríkjum eins og Spáni og Grikklandi séu að þau fari að líkjast Argentínu, fremur en að fasismi eða alræði nái þar tökum.
Argentína hefur upplifað langvarandi hnignun sem Economist segir að stafi af pópúlískum og heimóttarlegum stjórnmálamönnum, heimatilbúnum lausnum, veikum stofnunum, eilífri tilhneigingu til að horfast ekki í augu við staðreyndir og því hversu landið sé háð fáum auðlindum.
Þannig sé Argentína land sem er fast í fortíðinni. Ekkert skelfilegt hafi gerst, enginn einstakur atburður, heldur hafi hnignunin komið smátt og smátt, til dæmis er nefnt að stjórnmálamenn í Argentínu séu hrifnari af skyndilausnum en alvöru umbótum.
Argentína á í krónískri gjaldmiðilskreppu. Mynd úr búðarglugga í Buenos Aires þar sem er birt verð í erlendum gjaldmiðlum.