
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var ívið fjörugri en búist var við. Stefnan í atvinnu- eða efnahagsmálum breyttist ekki að ráði, það er ekki hægt að segja að flokkurinn hafi heigst til vinstri á fundinum, alls ekki, flokkurinn stendur áfram með kvótahöfum og vill einkavæða sem mest. En það sem gerðist var að þeir sem aðhyllast frjálslyndi í félagslegum efnum létu mikið fyrir sér fara. Aftur á móti heyrðist minna í kristilegum íhaldsmönnum, ólíkt því sem var á síðasta landsfundi.
Þessu frjálslyndi skal ekki ruglað við vinstri stefnu – það má allt eins segja að það eigi rót í frjálshyggju. Margir frjálshyggjumenn eru til dæmis þeirrar skoðunar að afnema eigi landamæri. Fáir fjölmiðlar í Evrópu boða meiri opnun í innflytjendamálum en hægra blaðið The Economist.
En hvað Sjálfstæðisflokkinn í heild varðar er þetta nokkur viðsnúningur, inn í landsfundarsamþykkt er boðað að taka eigi vel á móti innflytjendum og að hælisleitendum skuli sýnd mannúð (fyrir utan boðskap um aðskilnað ríkis og kirkju, mildi í fíkniefnamálum, og eindregna afstöðu í réttindabaráttu samkynhneigðra). Það má finna að sýður á íhaldsmönnum, til dæmis á Moggablogginu.
Þetta er náttúrlega aðeins líklegra til að höfða til ungs fólks en harðar íhaldsáherslur, en þá má líka geta þess að innan Sjálfstæðisflokksins hefur frjálslyndi og íhald alltaf togast á. Flokkurinn var beinlínis stofnaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins 1929.
Haukur Ingvarsson, rithöfundur og útvarpsmaður, skrifar á Facebook:
Mér hefur þótt það huggun harmi gegn að vissar skoðanir tilheyri mjög litlum minnihluta í stórum flokkum. Það er a.m.k. illskárri tilhugsun en að skoðanasystkinin hópi sig saman og stofni eigin flokk.
Það er nokkuð til í þessu. Flokkakerfinu íslenska hefur að að vissu leyti tekist að halda í skefjum skoðunum sem eru farnar að óma hátt í stjórnmálum í Skandinavíu. Þær mara undir yfirborðinu en fá ekki vera lengi uppi.
Í þetta sinn voru hörðustu íhaldskurfarnir voru beinlínis púaðir niður á landsfundinum.
Auðvitað er spurning hvernig þeir una því – og þá líka fjöldi fólks sem kýs Sjálfstæðisflokkinn og er sama sinnis? Munu þeir haldast áfram í Sjálfstæðisflokknum, taka skrefið yfir í Framsókn eða kannski stofna sinn eigin flokk – hvað ætli flokkur sem gerir út á andúð á innflytjendum gæti fengið mikið fylgi á Íslandi? Jafnmikið og í Skandinavíu?