
Sjálfstæðisflokkurinn veit sumpart ekki í hvern fótinn hann á að stíga – hann fylgislítill og eins ríkisstjórnin sem hann tekur þátt í. Það er náttúrlega með ólíkindum að ríkisstjórnarflokkarnir hafi samanlagt minna fylgi í skoðanakönnunum en Píratar.
Þetta speglast á landsfundi flokksins sem er allt í einu orðinn dálítið áhugaverður, þar birtist ákveðin leit að tilverugrunni fyrir flokkinn. Fréttir herma að breytingatillögur sem voru lagðar fram af ungu fólki í flokknum streymi upp úr málefnanefndum, þar hafa þær verið samþykktar og verður semsagt tekin afstaða til þeirra á sjálfum stóra fundinum.
Þarna eru tillögur um að skilja á milli ríkis og kirkju, hætta fjárstuðningi við landbúnaðarkerfið, um að létta af refsistefnu í fíkniefnamálum, um jöfn réttindi samkynhneigðra foreldra, gegn því að almannafé sé lagt í stóriðju og um endurskoðun á meðferð kynferðisbrotamála.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessum – en getur maður velt fyrir sér hvort sú tíð ekki liðin að Sjálfstæðisflokkurinn rúmi skoðanir af þessu tagi og kannski líka þveröfugar skoðanir, eins og hann gerði í eina tíð þegar hann var óskoraður valdaflokkur landsins?