

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, er hættulegur ofstækismaður, ósvífinn, spilltur, með snert af mikilmennskuæði – en hann er ekki heimskur.
En megalómanían er farin að taka á sig ansi öfgafullar myndir.
Netanyahu er svo viss um stöðu sína að hann sýnir sjálfum Bandaríkjaforseta eintóman hroka, tekur þátt í kosningabaráttu með andstæðingum hans úr Repúblikanaflokknum. Hann mætir í ræðustól hjá Sameinuðu þjóðunum, einblínir þóttafullur út í salinn og þegir – í þeirri fullvissu að hann sé hafinn yfir svona samkomur.
En nú tekur steininn úr þegar Netanyahu segir að Helförin sé í raun ekki Hitler að kenna, heldur Palestínumönnum. Hitler hafi í raun viljað reka gyðinga burt frá Evrópu, en hann hafi farið að ráðum svokallaðs Muftis af Jerúsalem sem lagði til að þeir yrðu drepnir. Muftinn var satt að segja neðanmálsgrein í sögunni.
Í Ísrael ætti þetta að þykja svívirða. Helförin er sjálfur grundvöllur Ísraelsríkis. Þegar litið er á hvernig Ísrael hefur haldið minningunni um Helförina lifandi – til dæmis með hinu áhrifamikla minningasafni Yad Vashem í Jerúsalem – eru ummæli forsætisráðherrans algjörlega galin. Að hvítþvo Hitler til að klína sök á Palestínumenn er ekki bara smekkleysa, heldur móðgun við það sem er heilagast í Ísrael, minninguna um alla gyðingana sem voru myrtir útrýmingarbúðum nasista og þá sem komust undan á flótta en lifðu í þeirri stóru spurn hvers vegna þeir hefðu komist undan meðan aðrir tortímdust.