
Eins og ég hef áður sagt er nánast óbærilegt að hlusta á sönglið í greiningardeildum sem eru að spá um íslenskt efnahagslíf. Jú, það er um að gera að rýna í efnahagsmálin – veitir ekki af í okkar óstöðuga hagkerfi þar sem menn treysta sér aldrei til að sjá nema nokkur misseri fram í tímann. En vandinn er sá að það er engin leið að vita hvaða hagsmunir eru að baki, hvað vakir fyrir greinendunum, hverju er verið að reyna að ná fram, hver er óháður – ef þá einhver?
Fjölmiðlarnir birta greiningarnar eins og þær séu stórisannleikur. Maður fyllist alltaf ónotakennd þegar slíkur fréttaflutningur hefst – þá rifjast upp hugtakið kranablaðamennska.
Staðreyndin er sú greiningar frá aðilum eins og samtökum atvinnulífsins, verkalýðshreyfingunni og bönkunum þarf að taka með miklum fyrirvara. Það er ekki bara vegna þess að flestir þessir aðilar hafa frekar lélegan feril í spádómunum – voru slegnir blindu gagnvart hruninu, mestu efnahagshamförum í seinni tíma sögu Íslands, eða vildu ekki sjá þær – heldur vegna þess að greinendurnir eru í þjónustu aðila sem eru að reyna að stýra hagþróuninni og eiga mikið undir því.
Eftir hrun var mikið rætt um að endurvekja þyrfti einhvers konar þjóðhagsstofnun. Í hinni hálfgleymdu eftirhrunsályktun Alþingis segir beinlínis:
Stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem fylgist með þjóðhagsþróun og semji þjóðhagsspá.
Nú er tilkynnt að stofnuð verði sérstök þjóðhagsskrifstofa innan forsætisráðuneytisins, hún á að greina hagkerfið og móta tillögur, segir í greinargerð.
En nei, þetta er ekki það sem var talað um, bætir ekki þörfina á greiningum sem eru utan og ofan við hagsmunakerfið. Hverjar eru líkurnar á því að slík skrifstofa muni birta upplýsingar sem koma sér illa fyrir forsætisráðherrann eða ríkisstjórnina?
Við erum varla búin að gleyma forsætisráðherranum sem lagði niður Þjóðhagsstofnun þegar hún spáði ekki rétt að hans mati?