

Jón Gnarr er í viðtali í Kiljunni í kvöld um nýju bókina sína, Útlagann. Þetta er einlægt og hreinskilið viðtal – ég segi eins og er að mér fannst áhrifamikið að tala við Jón um unglingsárin, lífið í héraðskólanum að Núpi í Dýrafirði, ógnvekjandi læknisaðgerð sem hann fór í og tímann þegar hann var á lausum kili í Reykjavík og neytti fíkniefna og læknadóps. Þetta er lýsing á ungum manni sem á mjög erfitt að fóta sig í tilverunni, er haldinn einhvers konar ofurnæmi og er mjög hæfileikaríkur á sinn hátt – þótt hann skilji það ekki sjálfur, hvað þá aðrir.
Þetta er afar merkileg þroskasaga.
Svo er fleira fínt efni í þættinum. Jón Kalman Stefánsson segir frá nýju bókinni sinni, Eitthvað á stærð við alheiminn, hún er framhald af Fiskarnir hafa enga fætur sem kom út í fyrra. Kristín Svava fer með kvæðið Stormviðvörun, eitthvert skemmtilegasta ljóð sem maður hefur heyrt í seinni tíð. Kvæðið hefur eftirfarandi tileinkun, sem kemur frá veðurfræðingnum Birtu Líf Kristinsdóttur – semsagt úr veðurfréttunum:
Dagurinn á morgun verður verri, en það þýðir ekki að dagurinn í dag sé ekki slæmur.
Í upphafi þáttarins fjöllum við svo um Hundadaga eftir Einar Má Guðmundsson og Lausnina, bók sem er skráð á höfundinn Evu Magnúsdóttur, sem mun ekki vera til eins og komið hefur fram í fjölmiðlaumræðu undanfarinna daga. Margir hafa tjáð sig um bókina, líklega flestir án þess að hafa lesið hana. En hvernig er hún í alvörunni?