

Kanadískir vinir mínir á Facebook fagna flestir sigri Frjálslynda flokksins í Kanada – og þá ekki síður ósigri Stephens Harper.
Það var löngu komið gott af stjórn Harpers sem var orðin spillt og makráð. Það hefði verið óhollt fyrir Kanada ef hann hefði náð endurkjöri, kosningabarátta hans var líka ljót og neikvæð.
Stórsigur Frjálslyndra er reyndar nokkuð óvæntur. Lengi vel virtist eins og að þrír stóru flokkarnir, Íhaldið, Frjálslyndir og Nýju demókratarnir stæðu nokkuð jafnt. Síðastnefndi flokkurinn er lengst til vinstri af þessum þremur – og hann beið afhroð sem ekki var fyrirséð.
Sveiflan fór til Frjálslyndra. Forsætisráðherra verður hinn 44 ára gamli Justin Trudeau. Þegar hann varð formaður flokksins 2013 þótti hann ekki vera til stórræðanna – algengur frasi sem var notaður um hann var að hann væri „léttvigt“. Hann væri sætur og vel ættaður en hefði enga innistæðu. Eitt af því sem hefur verið sífellt í umræðunni er hárið á Trudeau – sem er þykkt og fallegt, en hefur af einhverjum ástæðum verið notað af Íhaldsmönnum til að gera grín að honum.
Meðal þess sem Trudeau lofaði fyrir kosningar var að eyða opinberu fé í framkvæmdir til að vega upp á móti niðursveiflunni í kanadíska hagkerfinu, herða baráttuna gegn loftslagsbreytingum, hækka skatta á auðmenn en lækka skatta á millistéttina, hann hefur heitið því að bæta kjör frumbyggja Kanada, hann vill lagfæra kosningakerfið og lögleiða kannabis.
En nú er Frjálslyndi flokkurinn kominn aftur til valda. Enginn flokkur hefur mótað Kanada í svipuðum mæli og hann. Áhersla á almenna heilsugæslu, mannréttindi, fjölmenningu og sjálfstæða utanríkisstefnu sem einkennir Kanada á að miklu leyti upptök sín í langri stjórnartíð Frjálslynda flokksins. Má segja að Stephen Harper hafi unnið að því leynt og ljóst að grafa undan arfleifð Frjálslyndra. Hann vildi færa Kanada nær þjóðfélagsgerðinni sem tíðkast sunnan landamæranna í Bandaríkjunum, en því hefur nú verið hafnað í þessum sögulegu kosningum.
Meðal merkra leiðtoga hans eru forsætisráðherrann og Nóbelsverðlaunahafinn Lester B. Pearson, upphafsmaður friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna, og Pierre Trudeau, faðir Justins, en hans er ekki síst minnst fyrir hinn stórkostlega Frelsis- og mannréttindasáttmála Kanada. Báðir eiga sinn kafla í sögu mannréttindabaráttu.
Justin Trudeau er sonur hins stórmerka stjórnmálamanns Pierre Eliott Trudeau og Margaret Trudeau, sem var fastagestur í slúðurpressunni í eina tíð og skemmti sér með Rolling Stones.