

Það væri hálfgerð bilun fyrir tónlistarunnendur að fara ekki að hlýða á Philharmonia Orchestra frá London – fyrri tónleikarnir voru í Hörpu í kvöld, seinni tónleikarnir eru annað kvöld, semsagt mánudag.
Ekki aðeins er þetta stór og ótrúlega þétt hljómsveit á heimsmælikvarða, heldur leikur líka með henni einhver frábærasti einleikari sem hefur komið í Hörpu, Daniil Trofimov frá Rússlandi.
Hann er aðeins 24 ára, frá Nizhny Novgorod, hefur sigrað í stórum píanókeppnum eins og Tsjaikovskí keppninni í Moskvu er satt að segja, ja hvaða orð á maður að nota – æðislegur!
Trofimov sló algjörlega í gegn á fyrri tónleikunum í hinum magnaða píanókonsert númer 2 eftir Rakhmaninov – sem er líklega vinsælasti píanókonsert heims. Má kannski segja að hann sé ofspilaður, en Trofimov spilaði hann eins og hver einasta nóta skipti máli. Þessi ungi maður er vissulega dálítið sérkennilegur þar sem hann situr við píanóið, heldur smár vexti, drengjalegur, með ofboðslega einbeitingu svo augun leiftra – ég vitna í sjálfa Mörthu Argerich sem hefur sagt um Trofimov að hann hafi í senn frábæra tækni, blíðu og mýkt í leik sínum en líka hinn djöfullega þátt.
Mynd tekin á síma, Daniil Trofimov er uppréttur, það er stjórnandinn Jakub Hrusa, sem hneigir sig.