

Ég fann þessa mynd af blaðamönnum og skríbentum hjá Helgarpóstinum – hún hefur líklega verið tekin 1983 eða aðeins síðar. Það er eiginlega ótrúlegt að sjá hversu mikið mannval var á þessu litla blaði. En það var alltaf mikil stemming í kringum Helgarpóstinn, ungt fólk í Reykjavík hlakkaði til þegar hann kom á göturnar – ég man ekki lengur hvort það var á fimmtudögum eða föstudögum.
Blaðið var á sinn hátt málgagn minnar kynslóðar, það var byggt nokkuð á hugmyndum Vilmundar Gylfasonar um pólitík og fjölmiðla og þarna var í bland gagnrýnin blaðamennska, stjórnmálaskýringar, vönduð viðtöl, greinar eftir snjöllustu pistlahöfunda landsins og menningarumfjöllun þar sem var mikið fjallað um það sem ungt fólk var að fást við.
Á þessari mynd má sjá í fremstu röð Vernharð Linnet sem skrifaði um djass; Gunnlaug Sigfússon sem skrifaði um dægurtónlist; pistlahöfundinn Sigurð A. Magnússon og hinn frábæra ljósmyndara blaðsins, Jim Smart.
Í annarri röð blaðakonuna og rithöfundinn Jóhönnu Sveinsdóttur (sem maður saknar alla tíð); pistlahöfundinn Sigríði Halldórsdóttur; pistlahöfundinn Auði Haralds; Kristínu Ástgeirsdóttur blaðamann; Pétur Gunnarsson pistlahöfund og Ingólf Margeirsson ritstjóra (jú, maður saknar líka Ingós).
Í efstu röð eru Gísli Helgason pistlahöfundur; blaðamaðurinn Egill Helgason, líklega yngstur í hópnum; Árni Þórarinsson ritstjóri; Guðmundur Arnlaugsson aldursforseti sem skrifaði um skák; Magnús Torfi Ólafsson pistlahöfundur; Páll Kristinn Pálsson pistlahöfundur; Árni Óskarsson, líklega pistlahöfundur; Guðjón Arngrímsson blaðamaður; Hallgrímur Thorsteinsson blaðamaður og Sigurður Pálsson pistlahöfundur.
Glæsilegur hópur – og jú, þetta var gott partí. Mig minnir að hluti af hópnum hafi endað á veitingahúsi sem kallaðist Rán og var við Skólavörðustíg. Það var dálítið eftirminnilegur staður.