
Árni Páll Árnason er stjórnmálamaður sem á ekki sjö dagana sæla – og líklega eru dagar hans í formannsembætti Samfylkingarinnar brátt taldir.
Það er afskaplega óþægilegt fyrir hann að fá það í andlitið frá Jóhönnu Sigurðardóttur að hann hafi eyðilagt stjórnarskrármálið. Líklega koma í kjölfarið fram háværar kröfur um afsögn hans.
En kannski er rétt að skoða þetta aðeins nánar.
Þegar Árni Páll tekur þá afstöðu síðla vetrar 2013 að ekki sé hægt að klára stjórnarskrána á Alþingi er hann kannski bara að viðurkenna orðinn hlut.
Það var eiginlega ráðgáta hversu illa var haldið á stjórnarskrármálinu fram að því. Stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til Alþingis í júlí 2011. Kosningin um tillögurnar fór ekki fram fyrr en í október 2012, 15 mánuðum síðar.
Þar var spurt hvort kjósendur vildu að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu „lagðar til grundvallar“ nýrri stjórnarskrá. Það er býsna opið orðalag. Málið átti semsagt eftir að fara inn á Alþingi.
Það gerðist ekki fyrr 2013 þegar stutt var til kosninga. Stjórnarskrármálið var í nefndum fram á vorið og þá gáfust menn upp. Það vakti reiði stjórnarskrársinna og nú er það semsagt Árni Páll sem fær að sitja uppi með skömmina.
Sé ferill málsins skoðaður er samt ekki hægt að verjast þeirri tilhugsun að fleiri beri ábyrgð á því að málið klúðraðist, þar á meðal Jóhanna Sigurðardóttir.
Náðarhögg stjórnarskrárinnar nýju var þó sennilega hæstaréttarúrskurðurinn sem ógilti stjórnlagaráðskosningarnar. Hugsanlega var þessi úrskurður vondur og vitlaus – margt bendir til þess – en það var samt Hæstiréttur sem kvað upp úr með þetta og eftir það var ferlið orðið mjög berskjaldað, það vantaði einfaldlega skriðþungann sem þurfti til að klára það – leikurinn var of auðveldur fyrir andstæðinga þess.