

Í nýrri bók sem nefnist Hundadagar fjallar Einar Már Guðmundsson um Jörund hundadagakonung. Hann fer reyndar um víðan völl í bókinni og skrifar líka um Jón Steingrímsson eldklerk og fræðimanninn Finn Magnússon.
En Jörundur er aðalpersónan – aldrei hefur maður skynjað jafn glöggt hvað þetta er ótrúlegur náungi og í bók Einars. Hann er náttúrlega bullandi ofvirkur, eins og það er kallað í dag, en hann er líka barn samtíðar sinnar, Napóleonstímans, þegar ruddu sér til rúm miklar frjálsræðishugsjónir. Þetta er tími sinfónía Beethovens og söguhetja Stendahls.
Áður en Jörundur kom til Íslands hafði hann kornungur maður farið um Kyrrahafið, komið til Tahiti og siglt fyrir hið ógnarlega Horn. Og eftir að hann var á Íslandi stundaði hann njósnir fyrir Breta í Evrópu, fór í undarlegan njósnaleiðangur um Evrópu. Endaði svo ævina lengst suður í Tasmaníu þangað sem hann hafði verið fluttur sem fangi.
Jörundur er snjall og framtakssamur, yfir honum er ákveðinn hetjuljómi, en hann er líka ótrúlega laginn við að koma sér í vandræði.
Einar Már miðlar þessu efni af mikilli frásagnagleði, fer vítt og breitt og er skemmtilega útúrdúrasamur – við fáum að heyra meira um það í Kiljunni í sjónvarpinu klukkan 20.45 í kvöld.