

Satt að segja er maður dálítið tvístígandi gagnvart hinni nýju Stjórnstöð ferðamála. Vissulega er rík þörf á stefnumótun innan ferðaþjónustunnar – hún hefur eiginlega ekki verið til fram að þessu. Í þessari stofnun mætast ríki, sveitarfélög og hagsmunaaðilar, en í stjórninni sitja hvorki meira né minna en fjórir ráðherrar, fjórir hagsmunagæslumenn og tveir frá sveitarfélögunum.
Þetta virkar eins og dálítið skringilegt samkrull – og forstjóri þessa batterís er ráðinn án þess að starfið hafi verið auglýst. Það hefur líka sýnt sig, eins og varðandi hinn misheppnaða Náttúrupassa, að það getur verið varasamt að láta hagsmunaöflin ráða of miklu.
En það á væntanlega eftir að skýrast hverjar valdheimildir þessarar stofnunar verða og hvernig fjárveitingum verður háttað.
Þó er ekki hægt að efast um knýjandi þörf á að bregðast við ferðamannastraumnum. Ferðavefurinn turisti.is birtir tölur um umsvif á Keflavíkurflugvelli í september en þar kemur fram að ferðirnar eru helmingi fleiri en í hittifyrra. Það vekur líka athygli að hlutur erlendra flugfélaga eykst stöðugt.
Skúli Mogensen, forstjóri Wow, hefur verið mjög djarfhuga í yfirlýsingum um nauðsyn uppbyggingar vegna aukinnar ferðamennsku. Sumum finnst kannski vel í lagt hjá Skúla, en þegar betur er að gáð virðist flest vera rétt og sjálfsagt hjá honum. Það þarf líklega að byggja hraðar upp á Keflavíkurflugvelli og vegakerfið er allsendis ófullnægjandi. Skúli leggur til að ráðist verði í að tvöfalda hringveginn sem er löngu tímabært. Þar æða áfram á þröngum vegum stórir vöruflutningabílar innan um túrista í bíldósum.
Það er líka rétt hjá Skúla að aldrei hefur vantað vilja eða fé til að hlaða undir stóriðju á Íslandi, en þegar ferðaþjónusta er annars vegar ganga hlutirnir býsna hægt.
Fimm ráðherrar voru mættir þegar tilkynnt var um Stjórnstöð ferðamála. Vonandi ber það vott um eindreginn vilja til að gera betur.