Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum þá lést Örnólfur Thorlacius, fyrrum rektor Menntaskólans í Hamrahlíð (MH) í Reykjavík, á sunnudagskvöldið 5. febrúar sl.
Örnólfur var 85 ára gamall en hann fæddist 9. september 1931. Foreldrar hans voru Sigurður Thorlacius skólastjóri og Áslaug Kristjánsdóttir Thorlacius ritari. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951 og námi í lífræði, efnafræði og dýrafræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð.
Örnólfur kenndi við MR 1960 til 1967 og við MH 1967 til 1980 og var rektor MH 1980 til 1995.
Örnólfur frumsamdi margar bækur, einkum kennslubækur og þýddi fjölmargar bækur af ýmsum toga og birti greinar í tímaritum. Þekktastur er Örnólfur fyrir alþýðufræðslu sína, m.a. vinsæla þætti í útvarpi og sjónvarpi og þá sérstaklega sjónvarpsþáttinn Nýjasta tækni og vísindi sem var á dagskrá RUV í mörg ár. Finna má á vísindavef Háskóla Íslands mörg svör hans af ýmsum toga.
Hann hlaut margar viðurkenningar fyrir brautryðjendastarf og frumleika við miðlun vísinda. Örnólfsbók var gefin út honum til heiðurs á 75 ára afmæli hans, en í henni eru m.a. fjölmargar ritgerðir eftir hann.
Örnólfur var kvæntur Guðnýju Ellu Sigurðardóttur sérkennara sem lést fyrir aldur fram 1983.
Þau eignuðust fjóra syni Sigurð, Arngrím, Birgi og Lárus.
Síðar var sambýliskona hans Rannveig Tryggvadóttir þýðandi. Hún lést 2015.
Þrátt fyrir erfið veikindi tókst Örnólfi að ljúka bók sinni um sögu flugsins, sem kom út nú fyrir jólin. Af þessu tilefni tók Magnús Þór Hafsteinsson ritstjóri Vesturlands viðtal við Örnólf Thorlacius sem birtist í blaðinu nú í desember.
Vesturland er systurblað Eyjunnar og fer viðtalið fer hér á eftir:
Örnólfur Thorlacius hefur skrifað sögu flugsins
„Þetta eru leifar af gamalli flugvéladellu,“ segir Örnólfur Thorlacius fyrrum rektor og brosir í kampinn þar sem hann situr í hjólastól á herbergi sínu á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík. Um leið handfjatlar hann nýútkomna bók sína „Flugsaga.“ Eins og nafnið bendir til þá segir þessi 238 síðna prentgripur sögu flugs mannsins frá öndverðu til okkar daga. Hér er ekki tekst á við neitt smáverk af manni sem fyllti 85 ára aldur þann 9. september síðastliðinn.
Frumkvöðull í sjónvarpi
Allir Íslendingar komnir til vits og ára þekkja og muna eftir Örnólfi. Hann var umsjónarmaður hinna geysivinsælu sjónvarpsþátta „Nýjasta tækni og vísindi.“ Þeir hófu göngu sína undir hans stjórn þegar árið 1967. Þá var Ríkissjónvarpið aðeins eins árs. Ungir sem aldnir Íslendingar fengu þarna að kynnast nýjustu framförum mannkyns á vísinda- og tæknisviðinu.
Fyrir fjölmarga var þetta ógleymanlegt sjónvarpsefni á tímum þegar aðeins var ein sjónvarpsrás í landinu og þjóðin sat sameinuð við tækin, bæði til skemmtunar en ekki síður til fræðslu.
Þáttastjórnunin var aukavinna hjá Örnólfi sem starfaði sem framhaldsskólakennari í raungreinum. „Ég hef alltaf verið frekar tæknilega sinnaður í bland við vísindin,“ segir hann kankvís.
Samhliða kennslu og fleiri störfum þá stýrði Örnólfur þó „Nýjustu tækni og vísindum“ allt til ársins 1980 að hann tók við stöðu rektors Menntaskólans við Hamrahlíð í Reykjavík. Henni gegndi hann í 15 ár.
Stríðsárin tendruðu flugáhugann
Mörg síðustu árin hefur Örnólfur búið á Grund. Því fer þó fjarri að hann hafi setið þar með hendur í skauti. Þó að fæturnir hafi gefið sig þá lætur hann það ekki bitna á fræðagrúskinu og sköpunargleðinni. Frá honum hafa streymt greinar sem birst hafa í ýmsum tímaritum. Örnólfur hefur einnig skrifað mikilvægar kennslubækur fyrir framhaldsskólana í líffræði, lífeðlisfræði og erfðafræði. Árið 2010 sendi hann svo frá sér bókina „Kafbátasaga“ þar sem hann rakti sögu kafbátanna. Nú bætist „Flugsagan“ við, áþekk bók og í sama broti.
Þessi mikli fræðaþulur segir aðeins frá því þegar hann fékk áhugann á flugi. „Það var þegar ég var í barnaskóla hér í Reykjavík og Bretarnir komu hingað og hernámu landið í maí 1940. Ég man varla eftir að hafa séð flugvél fyrr en þá. Á hernámsdaginn flugu þeir á litlum Walrus-flugbát hér yfir borgina fram og aftur til að reyna að láta líta út fyrir að hér væri flugfloti á ferð. Við Sigurður Líndal seinna lagaprófessor vorum miklir félagar, gengum saman í skóla frá sjö ára bekk til stúdentsprófs og bárum okkur saman um margt sem snerti flugið. Stríðsárin eftir að Reykjavíkurflugvöllur var tekinn í gagnið voru gósentími fyrir okkur í þeim efnum.“ Örnólfur bæðir við að þrátt fyrir þennan áhuga frá barnæsku hafi hann aldrei lært flug. „Nei, ég hef bara notið þess sem farþegi.“
Flokkunarfræði dýraríkisins
Örnólfur Thorlacius segir að það hafi tekið hann hátt í þrjú ár að skrifa stórvirkið um sögu flugsins – reyndar með ótal öðrum skrifum. Samhliða því hefur hann til að mynda haft annað risavaxið verkefni í handraðanum sem brátt verður búið til prentunar. Það snýr að sjálfri líffræðinni. „Þetta er flokkunarfræði dýraríkisins allt frá frá svokölluðum frumdýrum, sem eru þau frumstæðustu og eiginlega ekki lengur talin til dýra, og svo upp úr til hryggdýranna og þá mannsins. Svona flokkunarfræði hefur ekki áður komið út á íslensku,“ segir Örnólfur. Þessi bók liggur fyrir í handriti. „Ég hef sent þetta til útgefanda en það fyrirtæki treysti sér ekki til að gefa þetta út nema til kæmu styrkir til útgáfunnar. Ég hef ekki nennt að standa að leita að slíkum.“
Þess má að lokum geta að Örnólfur á góð tengsl við Vesturland. Arngrímur Thorlacius er dósent í efnafræði og starfar meðal annars við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þar sem hann býr. „Síðan er Kristín Rannveig Thorlacius systir mín í Borgarnesi. Hún var gift séra Rögnvaldi Finnbogasyni sóknarprest á Staðarstað. Finnbogi sonur þeirra býr einnig í Borgarnesi og er kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Já, maður fór endrum og sinnum vestur hér í eina tíð.“