„Nú er kaldhæðnin ein af stóru einkennum fasismans, en þannig vill til að sá hópur á Íslandi sem hvað dyggast hefur stutt Donald Trump og fagnað sigri hans, er sama fólkið og kvartar linnulaust undan svokölluðum pólitískum rétttrúnaði. Að vísu virðist þetta ágæta fólk rugla hugtakinu saman við almenna velvild í garð annars fólks, eða mannréttindi eða eitthvað slíkt, en það er vissulega pólitískur rétttrúnaður til staðar á Íslandi eins og annars staðar.“
Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson fyrrverandi þingmaður Pírata í pistli sem birtist í Kjarnanum í morgun. Hann segir það hafa verið óskráða reglu í stjórnmálaumræðu að aldrei líkja neinu við fasisma því farið hafi verið full fjálglega með hugtakið í óagaðri samtölum í gegnum tíðina:
En þessi pólitíski rétttrúnaður þýðir að þegar fasisminn snýr aftur, eins og fjölmargir hafa spáð í meira en 70 ár að hann muni gera, þá fyrirskipar pólitíski rétttrúnaðurinn afneitun. Enga hegðun skal bera saman við fasisma. Þetta er hinn sanni pólitíski rétttrúnaður, ekki sá að krefjast jafnræðis fyrir lögum óháð trúarbrögðum, eða mannúð í málefnum útlendinga,
segir Helgi Hrafn. Í síðustu viku sagði Ásta Guðrún Helgadóttir þingflokksformaður að hún hefði áhyggjur af því að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé fasisti:
„Mér finnst bara mjög mikilvægt að við köllum hlutina réttum nöfnum. Þessi hegðun sem Bandaríkjaforseti hefur sýnt, með alræðistilburðum, með því að afneita upplýsingum og sameiginlegum gildum sem bandaríska þjóðin hefur gert með sér – þetta er fasísk tilhneiging. Ég er ekki að nota þetta í léttúðuglega. Fasismi er raunverulegt hugtak, sem á við raunverulegt pólitískt ástand sem á við raunverulegar gjörðir og það sem Donald Trump hefur verið að gera síðustu daga er fasískt,“
sagði Ásta Guðrún. Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir umræðuna vera komna langt út fyrir raunveruleikann og það séu fordómar að kalla lýðræðislega kjörin stjórnvöld fasísk.
Engin takmörk fyrir Donald Trump
Helgi Hrafn segir hins vegar að ekki sé nauðsynlegt að skilgreina fasisma í smáatriðum til þess að bera saman stjórnartíð Donalds Trumps við uppgang fasismans á Ítalíu eða í Þýskalandi. Það sé erfitt að skilgreina fasisma þar sem faðir fasismans, Benito Mussolini, hafi sjálfur ekki verið með klára skilgreiningu. Segir Helgi Hrafn margt í orðum Trump geta passað við fasisma.Til dæmis hafi Trump grafið undan lögmæti dómstóla og þar með réttarríkisins með því að gagnrýna harkalega dómarann sem dæmdi tilskipun forsetans ólögmæta:
„Athugum að tilskipunin sem sett var lögbann á var, að sögn sterka leiðtogans, til þess að verja bandaríska þegna gegn hryðjuverkum. Markmiðið virðist hinsvegar miklu frekar vera að uppfylla loforð hans um að vera leiðinlegur við múslima. Hvorki leyniþjónustan eða herinn kölluðu eftir þessu, og eru þó heldur betur ófeimin við að sanka að sér valdheimildum. Hvernig heldur fólk að hann bregðist við ef hryðjuverkárás verður framin í Bandaríkjunum í forsetatíð hans, miðað við hegðun hans núna? Hvar munu mörk hans reynast þá?,“
spyr Helgi Hrafn. Svarið sé hvergi. Því með orðræðu sinni og hegðun hafi Donald Trump sýnt að honum að fyrir honum eru engin takmörk:
Hann gerir það sem hann vill og einfaldlega tekur slaginn við þá sem eru ósammála honum eða veita honum aðhald, sama hvort það eru dómstólar eða almenningur eða fjölmiðlar eða alþjóðastofnanir eða hvað. Við þurfum ekkert að velta fyrir okkur hvort hann sé líklegur til að beita gasklefum á einhverja hópa eftir 9 ár, því það stendur eftir og er einfaldlega þannig, að hegðun hans og orðræða eiga sér fyrirmyndir í hrottunum sem náðu völdum í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar. Auðvitað eru aðstæður í Bandaríkjunum frábrugðnar þeim sem voru í Evrópu á sínum tíma enda er birtingarmynd fasismans hvergi nákvæmlega eins, en öll höfuðeinkennin eru til staðar og ættu að vera öllum augljós.
Við getum ekki leyft pólitískum rétttrúnaði að blinda okkur fyrir því.