fbpx
Mánudagur 28.júlí 2025
Eyjan

„Naumur meirihluti kallar á aukið samstarf“ – Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis í viðtali

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 7. febrúar 2017 17:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Suðurkjördæmis, var á dögunum kjörin forseti Alþingis. Unnur Brá hefur setið á þingi í áratug og er með öflugri þingmönnum nýkjörins Alþingis. Ritstjóri Suðra tók Unni tali um nýtt kjörtímabil, áhugamálin og forsetaembættið. Unnur Brá segir að nýtt kjörtímabil leggist mjög vel í sig og hana hlakki til samstarfsins við gott fólk í þinginu.

Það verður væntanlega mikið starf að halda utan um þingið, ekki síst þegar stjórnin styðst við minnsta mögulega meirihluta?

„Ég held að það sé alltaf annasamt starf að vera þingforseti. Sú staða að ríkisstjórn hefur verið mynduð með minnsta mögulega meirihluta kallar að mínu viti á aukið samstarf.“

Nú eru miklar væntingar eftir hverjar þingkosningar um bætt og betri vinnubrögð þingsins, en lítið hefur breyst, hvaða markmið setur þú þér sem þingforseta er varðar vinnulag þingsins?

„Ég vonast til að okkur gangi vel að tala saman þvert á flokka og hlustum hvert á annað. Ég er þannig gerð að ég vil sjá hlutina ganga og vonast til að að svo verði.“

Hverjar eru helstu áskoranir nýrrar ríkisstjórnar að þínu mati?

„Stjórn efnahagsmála er stærsta viðfangsefnið en þetta ár mun einnig litast af stöðunni á vinnumarkaði.“

Konráð Óskar, Unnur Brá, lilla 3ja daga gömul og Bríet Járngerður.

Er góður andi á milli flokkanna, en nú voru margir sjálfstæðismenn gramir mjög út í Viðreisn fyrir að yfirgefa flokkinn, ekki síst fyrrverandi formann og varaformann?

„Það sem er gert er gert og nú er ekkert annað en að vinna út frá stöðunni eins og hún er í dag og horfa fram veginn. Ég trúi því að allir sem starfa í stjórnmálum séu að því af heilindum með það markmið að gera gott. Með slíku fólki er alltaf hægt að vinna.“

Hvað gerir nýji þingforsetinn svo í frístundum?

„Undanfarnir mánuðir hafa farið í að sinna börnunum og aðlaga alla heimilismenn að nýjum einstaklingi. En ég hlakka til að geta farið að lyfta aftur og fara í fjallgöngur. Uppáhalds göngufjallið mitt er Þríhyrningur. Svo finnst mér mjög gaman að baka.“

Hverjar eru eftirlætis bækurnar þínar og hvað horfir þú á í sjónvarpinu?

„Uppáhalds bókin mín er Ég lifi, eftir Martin Grey og ég reyni að lesa hana einu sinni á ári. en hún fjallar um líf pólsks gyðings í Varsjá í seinni heimstyrjöldinni og hvernig hann lifði helförina af. Holl lesning fyrir alla sem starfa í stjórnmálum til að minna á hvað stjórnmálamenn eiga ekki að gera. Ég les mikið af sakamálasögum og mér finnst gott að vera alltaf með eina slíka í umferð.“

Unnur Brá með stelpunum á Austurvelli á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Hvaða stjórnmálamaður fyrri tíma er þín helsta fyrirmynd?

„Vigdís Finnbogadóttir er auðvitað stærsta fyrirmynd allra kvenna sem eru á svipuðu reki og ég. Fyrsta kosningabaráttan sem ég tók þátt í var baráttan hennar en ég, systir mín og frænka reyndum að sannfæra mömmu um að kjósa hana. Það tókst. Ég náði samt ekki að fara til Reykjavíkur að hylla hana þegar hún náði kjöri enda bara 6 ára, en á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna stóð ég á Austurvelli ásamt vinkonum mínum og hyllti Vigdísi þegar hún steig út á svalir þinghússins og hélt ræðu. Það var ógleymanlegt.“

Hvernig líst þér á nýjan forseta Bandaríkjanna?

Ég vona að hann muni koma mér á óvart á góðan hátt.

Hvað í umgjörð þingins þarf helst að breytast til að það verði skilvirkari vinnustaður?

„Þingmál þurfa að lifa lengur en þau gera í dag og gott væri ef betra skipulag næðist á umræðum um hvert mál. Á undanförnum árum hefur mikið starf verið unnið til að undirbúa breytingar á þingsköpum. Verkefni næstu vikna er að ég setji mig vel inn í hvert sú vinna var komin og halda svo áfram með það. Hitt lykilatriðið er svo auðvitað að ríkisstjórn hvers tíma komi snemma á þingvetrinum fram með sem flest af þeim málum sem leggja á fram svo góður tími náist til að vinna með þau í þinginu.“

Nú verða átökin aldrei tekin út úr stjórnmálunum, þau eru um margt kjarni lýðræðisins, þar sem fólk og flokkar reyna með sér um ólík sjónarmið, hvað er það sem þarf að  breytast í stjórnmálamenningunni til að traust í garð stjórnmálanna aukist á ný?

„Ég tel að kjósendur vilji sjá að það sem stjórnmálamenn segja komi fram í því sem þeir gera. Þá er oft gott að tala minna og gera meira. Vera trúr sinni sannfæringu með það að markmiði að láta gott af sér leiða og bæta lífskjör fólksins í landinu.“

Viðtal Björgvins G. Sigurðssonar birtist fyrst í Suðra. Smelltu hér til að lesa blaðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sakar ríkisstjórnina um hræðsluáróður í ESB-málinu

Sakar ríkisstjórnina um hræðsluáróður í ESB-málinu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“