Fargjöld í áætlunarflugi innanlands koma ekki til með að hækka vegna hækkunar á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu úr 11% í 24%. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2022 kemur fram að fyrirhugað sé að gistiþjónusta og önnur ferðaþjónustutengd starfsemi verði færð úr neðra þrepi í almennt þrep virðisaukaskatts, eða úr 11% í 24% skattþrep. Með ferðaþjónustutengdri starfsemi er meðal annars átt við farþegaflutninga, líkt og kemur fram á blaðsíðu 46 í fjármálaáætluninni.
Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir í samtali við Eyjuna að þessi hækkun eigi ekki við fargjöld í innanlandslandsflugi. Hann segir hins vegar að áhrif hækkunarinnar verði helst á ýmsa sérþjónustu á borð við pakkaferðir og leiguflug sem flugfélagið býður upp á, en sú þjónusta er nú í 11% og fari að öllu óbreyttu upp í 24% virðisaukaskattþrepið:
Þar sem hvorugt þetta, það er pakkaferðir og leiguflug eru stór þáttur í okkar rekstri gerum við ekki ráð fyrir mjög miklum beinum áhrifum á okkur en það má að sjálfsögðu búast við því að almenn hækkun á verðlagi á ferðaþjónustu í landinu muni hafa áhrif á eftirspurn ferðamanna að koma til landsins og þá um leið á okkar þjónustu.