Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð verður fram í dag verður skattkerfið einfaldað og lögð verður áhersla á „að auka skilvirkni í skattkerfinu“ eins og segir í fréttatilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins.
Er markmið stjórnvalda að skapa hagfelld skilyrði fyrir vaxtalækkun, og mynda þannig rými til að aukinna útgjalda og lægri skatta. Á tímabilinu verður unnið að því að vega á móti þenslu í hagkerfinu, stuðla að sátt á vinnumarkaði, taka á gengisstyrkingu og efla opinbera þjónustu og styrkja innviði, eins og segir í tilkynningunni.
Ríkisstjórnin hyggst fella flestar tegundir ferðaþjónustu undir almennt þrep virðisaukaskatts og mun breytingin taka gildi þann 1. júlí á næsta ári. Með því myndast svigrúm til þess að lækka í kjölfarið almennt þrep virðisaukaskatts úr 24 prósentum í 22,5 prósent en sú breyting mun taka gildi þann 1. janúar 2019. Með þeirri aðgerð minnkar bilið milli almenns þreps og lægra þreps virðisaukaskatts sem er mikil kjarabót fyrir neytendur en dregur einnig úr þörf fyrir verðhækkanir í ferðaþjónustunni.
Kolefnisgjald verður tvöfaldað og verður áfram unnið að útfærslu heildstæðs kerfis grænna skatta. Áður lögfestar eða áformaðar skattkerfisbreytingar taka gildi á tímabilinu, þar á meðal vörugjald á bílaleigubíla, samsköttunarákvæði og lækkun bankaskatts.
Sala eigna og arðgreiðslur, auk myndarlegs afgangs af rekstri, verða til þess að skuldir lækka hratt á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að óreglulegar tekjur verði nýttar til að greiða niður lán. Á sama tíma hækkar landsframleiðsla svo hlutfall lána af landsframleiðslu lækkar.