Helmut Landwehr, meðeigandi og framkvæmdastjóri í þýska bankanum Hauck & Aufhäuser, sagði rannsóknarnefnd Alþingis að bankinn hefði ekki verið raunverulegur eigandi Búnaðarbankans. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Sagði Landwehr að til þess að Hauck & Aufhäuser hefði getað orðið raunverulegur eigandi með fjárfestingu upp á 35 milljónir Bandaríkjadala hefði þurft að fá samþykki hjá stjórn bankans og að tilkynna það til þýska fjármálaeftirlitsins, hvorugt hafi verið gert.
Miðað við það sem honum og öðrum innan bankans var kynnt á sínum tíma þá hafi þátttaka Hauck & Aufhäuser takmarkast við vörslu hlutanna fyrir hönd íslenskra aðila. Var það niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að Hauck & Aufhäuser hafi ekki verið raunverulegur eigandi bankans heldur hluti af fléttu Ólafs Ólafssonar sem fékk á endanum 57,5 milljónir dollara í hagnað út úr félaginu Welling & Partners.
Í skýrslutöku við Héraðsdóm Reykjavíkur í lok janúar síðastliðnum sagði Ólafur að allar upplýsingar sem hefðu komið fram um aðkomu Hauck & Aufhäuser á sínum tíma hefðu, eftir því sem hann best vissi, verið réttar og nákvæmar.
Sjá frétt: Ólafur Ólafsson: Þú getur ekki ætlast til að ég svari getgátum 15 árum síðar
Í yfirlýsingu sem Ólafur sendi frá sér í gær sagði hann að Hauck & Aufhäuser hafi verið lögmætur hluthafi í Eglu hf. og að baksamningarnir hafi engin áhrif haft á niðurstöðu sölunnar:
Hvorki ríkissjóður né almenningur voru verr settir vegna þessara samninga, sem rannsóknarnefndin kýs að kalla blekkingu.
Samningarnir, eins og þeim er lýst í skýrslunni, snúa að fjármögnun á hlut Hauck & Aufhäuser í þessum viðskiptum, áhættu og hvernig hagnaði, ef af yrði en ekkert lá fyrir um, væri skipt. Hagnaðurinn kom til vegna hækkunar á hlutabréfaverði á tveggja ára tímabili en ekki vegna meintra blekkinga,
sagði Ólafur.