Kosningarnar í Hollandi voru léttir þar sem hægrisinnaðir útlendingahatandi popúlistar náðu ekki þeim árangi sem þeim hafði verið spáð. Það var líka gott að sjá góða kosningaþáttöku, sem sneri dæminu við. En hræðileg niðurstaða Verkamannaflokksins, PvdA, dregur enn og aftur upp þá mynd að það er rótgróinn jafnaðarmannaflokkur sem geldur fyrir vonbrigði og tilfinningar valdleysis sem gnæfa nú yfir evrópsk, sem og bandarísk stjórnmál, um þessar mundir.
Þetta segir Árni Páll Árnason fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar í grein sem birtist á vef tímaritsins Social Europe í dag, um er að ræða virt tímarit þar sem margt málsmetandi fólk af vinstri væng stjórnmálanna, þar á meðal fræðimenn á borð við Jürgen Habermas, láta í sér heyra. Árni Páll óttast að þessar hæringar haldi áfram:
Þetta mál brennur á mér þar sem Samfylkingin á Íslandi hlaut sömu örlög í kosningunum í haust, hlaut einungis rúmlega 6% atkvæða. Leiðin til tortímingar var á margan hátt sambærileg leið PvdA – við leiddum viðbrögðin við fjármálakreppunni sem sterkur flokkur í ríkisstjórn, fengum 30% atkvæða árið 2009, einungis til að fá 13% atkvæða árið 2013. Síðustu árin í stjórn mörkuðust af innbyrgðis deilum sem kom í veg fyrir að flokkurinn gæti markað sér áætlun um endurkomu og lauk með leiðtogaskiptum og 5,7% atkvæða. Það er ótrúlegt að sjá sterkan jafnaðarmannaflokk fá 6% stuðning.
Sama þróun í Evrópu og Bandaríkjunum
Árni Páll segir sama mynstur vera ofið um alla Evrópu, kjósendur sem ættu að styðja jafnaðarmannaflokka upplifa þá sem kerfisflokka og benda á áherslur um alþjóðlegt samstarf sem sönnun þess:
„Þriðja leiðin – meiri alþjóðleg viðskipti, stuðningur við alþjóðastofnanir og traust á frjálsan markað – hefur minnkað ójöfnuð um allan heim og hjálpað milljónum upp úr fátækt,“
segir Árni Páll, en þar sem aukin alþjóðavæðing færi störf út fyrir landsteinana þá upplifi fólk að jafnaðarmönnum sé alveg sama, að sama skapi þá hefur hlutdeild jafnaðarmannaflokka við endurreisn fjármálakerfa eftir kreppuna 2008 gert það að verkum að fólk sér þá sem fulltrúa stórra banka og fjármálafyrirtækja:
Stórir flokkar hægra megin við miðju hafa einnig þurft að þjást síðustu ár. Þrátt fyrir það þá virðast þeir standa sig betur í öllu mótlætinu og hafa náð að búa sér til áhrifamikið hlutverk, þrátt fyrir færri atkvæði. Kannski vegna þess að þeir eru hugmyndafræðilega og sögulega tengdari hugmyndinni um þjóðríki og eiga þar af leiðandi auðveldara með að tjá sig um áhyggjur fólks af innflytjendum og opnum landamærum, á meðan jafnaðarmennska er sögulega tengd við alþjóðahyggju.
Árni Páll segir að leiðin upp á við fyrir jafnaðarmannaflokka sé að marka sér stefnur sem sameina grunngildi jafnaðarmanna, alþjóðahyggju og bræðralag með hagnýtum stefnum sem gagnast þjóðfélaginu sem jafnaðarmenn hafa tekið þátt í að móta:
Það er verðugt verkefni fyrir jafnaðarmenn um alla Evrópu á komandi árum og verður að hefjast núna.