Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur flutt skrifstofu sína tímabundið úr Ráðhúsi Reykjavíkur. Nú er skrifstofa hans í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða sem staðsett er að Laugavegi 77.
Borgarstjórinn hefur verið á faraldsfæti innan þessara hverfa borgarinnar. Á mánudag fundaði Dagur með yfirstjórn borgarinnar í Austurbæjarskóla og heimsótti síðan skólann. Hann hefur auk þess fundað með foreldrafélögum skóla í miðbæ Reykjavíkur og hitt fulltrúa Valsmanna í Spennustöðinni við Austurbæjarskóla.
Í dag heimsótti Dagur Tækniskólann sem stendur á Skólavörðuholti og leikskóla á svæðinu. Hann kíkti í Gistiskýlið á Lindargötu og fer á harmonikkuball með eldri borgurum á Vitatorgi.
Þetta er í áttunda skiptið sem borgarstjóri færir skrifstofu sína úr Ráðhúsinu til eins hverfa borgarinnar.
Þriðjudaginn 21. mars verður svo haldinn opinn hverfafundur með íbúum í hverfinu í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl. 20.00. Til umræðu á fundinum verður allt sem tengist hverfinu, framkvæmdir og þjónusta en mesta áherslan verður lögð á ferðaþjónustuna í miðbænum.