„Í einu af símtölunum heim á meðan læknir og sjúkralið voru að vinna, kemur læknirinn til mín og tilkynnir að þetta sé búið og ekkert meira hægt að gera.“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson nýkjörinn formaður VR. Í átakanlegum pistli greinir hann frá af hverju hann ákvað að bjóða sig fram til formanns. Hlaut Ragnar Þór 62,98% atkvæða, eða 3.480 atkvæði alls. Ólafía B. Rafnsdóttir sitjandi formaður VR hlaut 37% atkvæði, eða 2.046 atkvæði. Hefur hann farið fram á launalækkun.
„Ef einhver hefði sagt mér fyrir 15 eða 20 árum að ég myndi bjóða mig fram til formanns VR hefði ég líklega hlegið mig máttlausan,“ sagði Ragnar í pistlinum en rekur svo átakanlega og sorglega sögu af hverju hann vill berjast fyrir félagsmenn sína og umbylta kerfinu.
Við gefum Ragnari orðið:
Þetta byrjaði haustið 2007 eða þann 9. september til að vera nákvæmur og komið að árlegri veiðiferð okkar félaga í Eystri-Rangá. Það var mikill spenningur fyrir ferðinni og allt leit út fyrir að hollið okkar myndi slá met í heildarfjölda veiddra laxa þetta árið. Við fengum bústað við Syðra-Fjallabak eins og við höfðum gert áður og áttum að byrja veiði morguninn eftir. Dagarnir á undan höfðu verið eitthvað svo góðir. Við höfðum hist öll fjölskyldan og borðað saman og einhver óútskýrð værð var yfir öllu. Þegar við komum í bústaðinn um kvöldið, erum rétt búnir að koma dótinu fyrir og þegar við settumst við stofuborðið gerðist eitthvað sem ég hefði aldrei getað trúað að gæti gerst.
Ég sé að félagi minn tekur andköf og baðar höndunum út í loftið. Þó hann hafi átt það til að taka alls konar rispur í gríni fann ég að eitthvað meiri háttar mikið var að. Hann stendur upp og reynir að komast að svalahurðinni þar sem hann hnígur niður. Ég var staðinn upp líka og næ að grípa til hans og draga þannig úr fallinu.
Hvernig gat þetta gerst? Ég var bara ekki að trúa þessu.
Með í för voru pabbi minn og annar vinur. Ég fann strax að hann var ekki að anda eðlilega og ekki fannst púls. Einhvern veginn án þess að hugsa vorum við komnir á fullt í endurlífgun. Mér fannst við hafa byrjað nánast sömu sekúndu og hann hneig niður. Einn kom sér strax í samband við Neyðarlínuna á meðan pabbi hnoðaði og ég blés. Við vorum staddir fjarri mannabyggðum og var því biðin eftir hjálp heil eilífð í minningunni. Þyrlan var komin af stað frá Reykjavík og sjúkrabíll á leiðinni.
Í blóma lífsins
Þegar hjálpin barst var fljótlega ljóst í hvað stefndi. Við vorum búnir að láta vita heim hvað væri í gangi og beið fjölskyldan með öndina í hálsinum eftir fréttum. Í einu af símtölunum heim á meðan læknir og sjúkralið voru að vinna, kemur læknirinn til mín og tilkynnir að þetta sé búið og ekkert meira hægt að gera. Það var tilviljun að ég var í símanum á þessum tímapunkti. Að bera sínum nánustu slíkar fréttir er eitthvað það erfiðasta sem ég hef gert. Þegar ég hugsa um símtalið, jafnvel enn í dag, finn ég að þetta hefur mjög sterk áhrif á mig, angistarópin og sorgin var óbærileg.
Við vorum auðvitað í miklu áfalli og í raun held ég að við höfum slegið út tilfinningalega þegar við vorum í þessum aðstæðum. Það var enginn tími til annars, við unnum sem einn maður í að reyna að ná honum til baka.
Hann var aðeins 35 ára og í blóma lífsins.
Það var skrýtin tilfinning að koma heim. Ég var algjörlega flatur tilfinningalega og öllum fannst við hafa gengið í gegnum svo mikið. Eins og áfallið hafi verið allt okkar af því við vorum á staðnum. Það var samt alls ekki þannig.“
Fjölskyldan skilin eftir
Ragnar Þór segir að það sem hafi fengið mest á hann var að kona hans og dætur sáu ekki fram á að geta staðið undir skuldbindingum eftir að síðasti launaseðill barst inn um lúguna.
Er það ekki fráleitt og óboðlegt í velferðarsamfélagi að fjölskyldum gefist ekki kostur á að takast á við alvarleg áföll og átakanlegan missi án þess að hafa fjárhagslegt þrot hangandi yfir sér frá fyrsta degi? Eða að venjulegt fólk þurfi að standa í fjársöfnun vegna alvarlegra veikinda?
Ragnar bætir við að í kjölfarið hafi hann áttað sig á að lífeyrissjóðakerfið var ekki það bakland sem hann taldi það vera. Hann byrjaði að lesa sér til um kerfið til að átta sig á því og gagnrýndi hversu lítið almenningur fær greitt þegar hann eldist eða áföll dynja yfir.
Þegar bankahrunið ríður yfir fer ég að sjá mikla misbresti í vinnubrögðum sjóðanna og verkalýðshreyfingarinnar sem skipa helming sæta í stjórnum almenna kerfisins. Ofurlaun, sjálftaka, fjölskyldutengsl og spilling er eitthvað sem fór að fljóta upp á yfirborðið.
Þá segir Ragnar:
„Lífeyrissjóðirnir eru stærstu eigendur fasteignalána á Íslandi. Þeir eru sannkallaðir risar á leigumarkaði og stærstu eigendur smásöluverslunar og þjónustu fyrirtækja hér á landi. Það þýðir að sjóðirnir hafa beinan og óbeinan hag af háu leiguverði, háu húsnæðisverði, háum vöxtum sem og verðtryggingu. Sjóðirnir hafa líka hag af lágum launum og hárri álagningu.
Við erum því orðin þrælar eigin kerfis sem þvertekur fyrir að koma að samfélagslegri uppbyggingu innviða samfélagsins öðruvísi en að græða sem mest á því.
Við getum gert svo miklu betur en það. Við eigum að hafa metnað til að bæta lífskjör okkar frá degi til dags og alla ævina með aðkomu sjóðanna í stað þess að lifa sem þrælar kerfisins til að hafa það hugsanlega gott eftir að vinnuskyldu lýkur.“
Ragnar sigraði eins og áður segir kosningarnar í dag. Hann vill að laun sín verði lækkuð um 300 þúsund krónur. Hann segir í lok pistilsins.
September 2007 var dagurinn sem breytti lífi mínu. Ég vona að þeir sem hafa lesið alla leið hingað þurfi ekki að eiga slíkan dag.