fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

Ríkisstjórn í stöðugri fallhættu: „Þetta er það sem tryggir líf ríkisstjórnarinnar“

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 5. mars 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er ríkisstjórn þriggja flokka með minnsta mögulegan meirihluta og eðli málsins samkvæmt er hún í stöðugri fallhættu. Vegna þess hvernig hún er samsett er hún alltaf að berjast fyrir lífi sínu og mun þurfa að gera það út kjörtímabilið. Það steðjar að henni meiri hætta en vant er vegna þess að hún hefur svo tæpan meirihluta og innan hennar eru uppi svo ólík sjónarmið. Það hefur hins vegar ekkert gerst sem bendir til að sú hætta hafi aukist eða sé eitthvað meiri nú en var fyrirséð strax í upphafi.“

Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst en rætt er við hann og Stefaníu Óskarsdóttur dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands í helgarblaði DV. Telja þau bæði að ríkisstjórnin sé veik og hafi ekki afl til að ráðast í grundvallarbreytingar, en á þessum tímapunkti sé ekki ástæða til að ætla en hún sitji fram að kosningum árið 2020.

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst

Nokkur ósamstaða hefur verið innan ríkisstjórnarinnar á þeim tæpu tveimur mánuðum sem hún hefur setið, strax á fyrsta degi gætti óánægju meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins um ráðherraskipan en bæði Brynjar Níelsson og Páll Magnússon vildu ráðherraembætti. Hafa stjórnarþingmenn gagnrýnt ráðherra og neitað að styðja stjórnarfrumvörp, en með eins manns meirihluta á þingi þýðir það að ríkisstjórnin þarf að leita á náðir stjórnarandstöðunnar til að ná frumvörpum í gegn.

Stefanía Óskarsdóttir dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands

Eiríkur segir að þrátt fyrir þessi vandræði í byrjun sé nú að róast yfir stjórninni, það sé hins vegar ómögulegt að segja til um framtíðina, hvort ríkisstjórnin haldi út kjörtímabilið eða ekki, það séu hins vegar litlar líkur á að stjórnin nái að þétta raðirnar þar sem sjónarmiðin séu svo ólík. Stefanía tekur í sama streng og segir stjórnina hafa verið heppna fram að þessu, hér sé uppgangur og góðæri en það séu mörg vandræðamál við sjóndeildarhringinn sem hafa ekki enn komið fram, nefnir hún sérstaklega gengisstyrkingu krónunnar, sölu bankanna, losun hafta og heilbrigðiskerfið:

Enn sem komið er heldur þetta samstarf áfram í hægagangi, það hefur lítið reynt á ríkisstjórnina enn sem komið er. Ég held að þessi ríkisstjórn, með þennan tæpa meirihluta, verði ekki til stórræðanna. Hún getur ekki markað algjörlega ný spor. Þetta verður, trúi ég, aðgerðarlítil ríkisstjórn, miðjumoð.

Eiríkur segir að besti vinur ríkisstjórnarinnar sé í raun stjórnarandstaðan:

Stjórnarandstaðan getur ekki tekið við eins og hún er núna samsett, það er bara algjörlega ómögulegt. Það er þetta sem gerir það að verkum að ríkisstjórnin er, þrátt fyrir innbyrðis veikleika, á vetur setjandi,

segir Eiríkur. Aðspurður hvort líkur séu á stjórnarandstaðan nái að þjappa sér saman og bjóða upp á valkost við ríkisstjórnina segir Eiríkur:

Nei, bilið á milli Framsóknarflokksins annars vegar og Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingar hins vegar er of mikið. Þetta er það sem tryggir líf ríkisstjórnarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“