Kaj Anton Larsen sem var þann 13. júní síðastliðinn dæmdur í 26 mánaða fangelsi fyrir að misþyrma 2 ára dreng ætlar að áfrýja dómnum. Aðalmeðferð hófst í byrjun mánaðarins í Jæren Tingsrett, dómstólnum í Sandnes í Noregi.
DV hefur ítrekað fjallað um málið en Kaj Anton var ákærður í október í fyrra. Áverkar á barninu voru slíkir að læknir brast í grát þegar hann lýsti þeim í vitnastúku. Kaj Anton hélt fram sakleysi sínu. Kaj Anton hefur þegar setið inni í 8 mánuði vegna málsins. Mbl greinir frá áfrýjuninni.
Málið kom upp á sínum tíma vakti það mikinn óhug, bæði í Noregi og á Íslandi. Í frétt DV segir að þennan örlagaríka föstudag, 23. október, hafði íslensk móðir barnsins treyst Kaj Antoni fyrir því að passa tveggja ára barn sem gat ekki mætt í leikskóla sökum veikinda. Móðirin hafði, samkvæmt upplýsingum DV, verið nýbyrjuð í nýrri vinnu og átti erfitt um vik að fá frí. Kaj Anton var treyst fyrir barninu. Þegar móðir barnsins kom heim uppgötvaði hún að barn hennar væri illa slasað. Fór hún með það á sjúkrahúsið í Stavanger í skyndi.
Kaj Anton mætti þangað skömmu síðar. Það sem kallað hefur verið ótrúverðugar útskýringar hans á áverkum barnsins, urðu til að vekja grunsemdir lækna sem kölluðu til lögreglu sem handtók Kaj Anton.
Kaj Anton hélt alltaf fram að barnið hefði dottið oftar enn einu sinni. Barnið hlaut samkvæmt upplýsingum DV handleggsbrot, áverka á höfði, mar á hrygg, hnjám og rist.
Læknar og hjúkrunarfræðingar, sem sinntu barninu á sjúkrahúsinu, voru meðal þeirra sem gáfu vitnisburð. Viðstaddir veittu því sérstaka athygli að málið reyndist fagfólkinu þungbært. Vitni lýsti því í samtali við DV að læknir hafi brostið í grát í vitnastúkunni þegar myndir af áverkum barnsins voru sýndar í dómsalnum.